149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:15]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaðurinn löglærður. Við getum bakað okkur skaðabótaskyldu, þá þarf einhvern evrópskan dómstól til þess sem hefur með þessa samninga að gera. Viðkomandi dómstóll getur sem sagt dæmt okkur skaðabótaskyld þvert ofan í hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna af því að við sögðum: Nei, það má ekki leggja sæstreng yfir þessar 12 mílur. Ég bið hv. þingmann að útskýra þetta fyrir mér.

Ég ætlaði ekki bara að tala um þetta heldur merkingarhlaðin hugtök. Mér finnst röksemdir Miðflokksmanna og Flokks fólksins vera þau sömu í allri þessari orðræðu. Það hafa verið búin til merkingarhlaðin hugtök, eins og Orkusamband Evrópu, sem myndi útleggjast sem European Energy Union eða eitthvað þannig. Eins er Orkustofnun Evrópu sem er væntanlega ACER. Nú vita allir hvernig orkustofnanirnar eru. Þær ráða yfir fimm til tíu málaflokkum, ekki bara raforkueftirliti. Auðvitað er ACER raforkueftirlitsstofnun.

Ég nefni þetta hér og vil fá svör hv. þingmanns við því hvers vegna þetta er gert. Hvers vegna er verið að búa til orð og hugtök sem lýsa ranglega því sem um er rætt? Þetta er þannig. Við getum hugsað okkur eitthvert sameiginlegt lestakerfi í Evrópu sem er mikið áhersluatriði í samgöngumálum Evrópu og það héti allt í einu Járnbrautarsamband Evrópu. Svo væri einhver eftirlitsstofnun með því að þetta væri gert og væri þá orðin Járnbrautarstofnun Evrópu.

Þessi aðferð og það sem var afhjúpað hér, að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, sem ekki er hér nú, hafði orðið uppvís (Forseti hringir.) að því að ræða um 100 rannsóknarleyfi á hendi eins aðila, smávirkjana — þetta er það sem ég hef verið að gagnrýna sem popúlisma, lýðhyggju.