149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:17]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er farið að verða svolítið skemmtilegt og ég þakka hv. þingmanni fyrir. Eigum við að fara í að búa til einhver hugtök eða hvað? Ég get ekki svarað því hvers vegna þetta er kallað orkustofnun eða orkusamband. Ætli það felist ekki í því að ACER er sá eftirlitsaðili sem kemur til með að þurfa að taka á málum ef upp rís ágreiningur á milli landa með sameiginlega hagsmuni á innri markaðnum, þ.e. ef löndin hafa ekki getað leyst þann ágreining innan sex mánaða, að mig minnir? (Gripið fram í.)

Að ætla endalaust að tala um málflutning Flokks fólksins á sama stað og Miðflokksins — ég er alls ekki í Miðflokknum, þetta eru tveir gjörólíkir flokkar. Ég hef nálgast minn málflutning á allt annan hátt. Ég hef reynt að nálgast hann meira lögfræðilega út frá EES-samningnum og hugsanlegri skaðabótaskyldu við það og svo líka í sambandi við hafréttarsáttmálann. Það er eins með allt annað, við erum fullvalda ríki og þegar við bökum okkur skaðabótaskyldu á hinum ýmsu sviðum gagnvart þjóðréttarlegum skuldbindingum, sem við erum líka að undirgangast, er það einfaldlega út af því að við höfum beitt fullveldinu eins og við getum gert óskorað innan okkar 12 mílna, sem er rétt. En hvaða áhrif hefur það hins vegar á þjóðréttarlegu skuldbindingarnar sem við höfum líka undirgengist? Það er stóra spurningin. Það er í þessu sem vafinn liggur og er langt frá því að vera hafið yfir allan vafa. Ef það væri hafið yfir allan vafa værum við ekki að ræða þetta hér og nú. Það er alveg á hreinu.