149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög upplýsandi andsvar. Hæstv. ráðherra sagði í lokin: Við ráðum því hvort við stígum inn á völlinn. Ef við gerum það ber okkur að fylgja reglunum. Svo sannarlega. Þetta er nákvæmlega það sem við höfum verið að benda á. Þetta er völlur sem við eigum ekki að stíga inn á vegna þess að þá þurfum við að fylgja reglum sem henta okkur ekki, henta ekki hagsmunum okkar.

Þá að fyrstu spurningunni varðandi Belgíumálið. Er eitthvað skrýtið við það að Evrópusambandið fari í mál við Belgíu ef landið uppfyllir ekki það sem búið er að lofa að gera? Nei, það er ekki skrýtið. Það er það sem ég er að benda á hér, það er bara alls ekki skrýtið. Það er það sem við er að búast.

En fyrir hvað er verið að fara í mál við Belgíu? Fyrir það að ætla sjálft, landið, stjórnvöld þess, að ákveða hvernig raforku- og gasverkefnum er háttað og fyrir það að landið ætli sjálft, Belgía, belgísk stjórnvöld, að setja skilyrði fyrir tengingu við raforku- og gaskerfi Evrópu. Vegna þess að samkvæmt þriðja orkupakkanum, eins og Evrópusambandið bendir á í þessu, hefur landið ekki slíka heimild. Því ber að leyfa stofnuninni, landsreglaranum, orkustofnun Belgíu, að taka við fyrirmælum frá ACER og stýra þessum málum, taka bindandi ákvarðanir um þessi mál. Svoleiðis að leikreglurnar sem hæstv. ráðherra segir réttilega að við þurfum að fylgja ef við stígum inn á þennan völl, eru þessar. Evrópusambandið er búið að kveða upp úr um það. Þær eru þessar: Stjórnvöld í landinu munu ekki hafa síðasta orðið í ákvörðunum um tengingu við raforku- og gaskerfi Evrópu og þau munu ekki hafa síðasta orðið um ákvarðanir um raforku- og gasverkefni í landinu. Þetta hlýtur að valda ráðherrann áhyggjum.

En hvað varðar aðfaraorðin þá er ég að vísa til þess að reglurnar, lögin, eru gjarnan túlkuð í samhengi við aðfaraorðin sem lýsa markmiðum reglnanna.