149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:42]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt á síðasta degi umræðunnar að finna fyrir því að við erum kannski ekki svo hjartanlega ósammála eftir allt saman, a.m.k. ekki um það um hvað málið snýst og hvar við stöndum, þrátt fyrir að við séum greinilega ósammála um hvað sé rétt að gera.

Ég vildi bara fá það fram að það væri alveg klárt að samningsbrotamál er ekki hægt að höfða á grundvelli aðfaraorða. Leikreglurnar, þannig að það sé alveg skýrt hvað ég átti við áðan þegar ég vísaði í það ef við ætluðum að stíga inn á völlinn, þá er ég að vísa í það hvort við ætlum að leggja streng. Það hvort við ætlum almennt að stíga inn á völlinn er varðar innri raforkumarkað, ekki fýsískan, í gegnum streng, heldur bara inn á innri raforkumarkað, þá skiptir auðvitað máli að halda því til haga að sú ákvörðun var tekin fyrir 20 árum. Við erum ekki að taka þá ákvörðun núna, hún var tekin fyrir löngu síðan.

En ég heyri alveg tóninn hjá hv. þingmanni almennt um þessi mál og það vill þannig til að ég er ekki í hjartanu ósammála öllu því sem þar kemur fram hvað varðar hagsmunagæslu og að standa í lappirnar (Forseti hringir.) og færslu á valdi og öðru slíku, en við getum ekki farið í keppni hver elskar Ísland (Forseti hringir.) mest. Mér (Forseti hringir.) finnst þessi umræða undanfarið aðeins hafa snúist um það hver sé mesti föðurlandsvinurinn. Það að taka þátt í alþjóðasamstarfi er einmitt til þess líka að byggja upp tækifæri og stöðu fyrir þá sem hér búa.