149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Við erum auðvitað sammála um að alþjóðastarf sé mikilvægt en það þarf, í ljósi þess að Ísland er fullvalda ríki og við höfum, held ég, flest trú á fullveldinu, að vera á forsendum okkar Íslendinga. Það er nú eitt af því góða við EES-samninginn að þegar vakna efasemdir um að verið sé að taka ákvarðanir sem gagnist öllum þá hafa menn heimild til að fara með það í nánari skoðun. Í svona stóru deilumáli er mér óskiljanlegt að stjórnvöld skuli ekki nýta þá heimild.

Hæstv. ráðherra gat um að ákvörðun um að stíga inn á þennan völl hefði verið tekin fyrir 20 árum. Þýðir það að við þurfum þá bara að halda áfram að spila þennan leik? Og hvað segir það okkur um fjórða orkupakkann?

Ég veit að hæstv. ráðherra er búin með síðara andsvar sitt, en ég varpa þessu svona fram. Ef þetta er raunin, að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar byggist á því að við höfum stigið inn á þennan völl fyrir 20 árum, má þá ekki lesa í það að þar með þurfi svo að innleiða fjórða orkupakkann? Maður skyldi ætla það.