149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frumvarp um Orkumálastofnun og sjálfstæði hennar hefur að gera með, að mér skilst á hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, hættuna á því, samkvæmt skilningi hans á málinu, að við missum vald til erlendra eftirlitsaðila, að íslenskur eftirlitsaðili verði í rauninni bara að fylgja og hafi bindandi ákvarðanir samkvæmt því. Þetta er fullveldisatriði.

Ég er sammála hv. þingmanni að þegar kemur að stjórnarskránni eigum við að láta hana njóta vafans og hvað varðar slíkt fullveldisframsal, ef það er vafi á að það rúmist innan stjórnarskrárinnar eigum við ekki að færa það frá almannavaldinu á Íslandi út á við.

En mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað með þegar kemur að því færa almannavald frá stjórnmálamönnum á Íslandi, honum sjálfum m.a. og ráðherrum, og það er mikið ráðherraræði á Íslandi, til almennings? Það er vinna í gangi samkvæmt stjórnarsáttmálanum um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson situr í hópi forsætisráðherra þar sem er verið að fjalla um fjögur mál sem gera vald almennings og varnir varðandi auðlindir og náttúru öflugari. Þetta er í boði fyrir lok þessa kjörtímabils. Mig langar að heyra hvar hv. þingmaður stendur í því. Þetta er um að náttúruvernd sé fest í stjórnarskrá, um að taka út að hægt væri að þvinga Ísland til að fara í alls konar auðlindanýtingu sem skemmdi náttúruna. Það væri ekki hægt af því að þær varnir væru í stjórnarskrá og enginn alþjóðasamningur gæti brotið það.

Annað atriði sem margir eru hræddir um í þessu máli eru auðlindir, að þær séu í eigu þjóðarinnar. Það yrði fest í stjórnarskrána að þjóðin ætti þær.

Varðandi fullveldisafsal þyrfti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu ef Alþingi samþykkti fullveldisafsal, eins og sumir vilja meina að sé í gangi hérna umfram það sem er heimilt. Allt fullveldisafsal þyrfti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin gæti stöðvað það. Það er þetta sem er á borðinu og er í boði fyrir lok (Forseti hringir.) kjörtímabilsins og jafnframt að í öllum málum gætu 10% kjósenda kallað þau til sín í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Forseti hringir.) Þetta er í boði, þetta er það sem liggur fyrir hjá hv. þm. (Forseti hringir.) Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í starfshópi Katrínar Jakobsdóttur um breytingu á stjórnarskránni. Hvaða afstöðu hefur hann til þessa máls?