149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka áhugaverða fyrirspurn eða andsvar. Ég byrjaði í stjórnmálum sem nokkurs konar uppreisnarmaður gegn kerfinu og talsmaður aukins beins lýðræðis. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að þetta þurfi auðvitað að vera í bland, fulltrúalýðræði og beint lýðræði. En ég er mjög hlynntur auknu beinu lýðræði svoleiðis að ég get svarað spurningu hv. þingmanns hvað það varðar mjög einfaldlega: Já, ég er þeirrar skoðunar að við eigum að auka beint lýðræði á Íslandi.

Hvað varðar hinar spurningarnar um ráðstafanir vegna þriðja orkupakkans þá er vandamálið gagnvart Evrópusambandinu og EES-samningnum að menn geta ekki tryggt eftir á. Það þarf að gera ráðstafanirnar áður því að þegar búið er að innleiða í samninginn samþykktir eru þær orðnar lög og þá skapast hætta á samningsbrotamáli. Jafnvel þótt við héldum hér þjóðaratkvæðagreiðslu um að fara ekki eftir ákvæðum þriðja orkupakkans að einhverju leyti þá nýttist það okkur ekki til að losna alveg frá því að þurfa að fylgja samningnum. Þannig gæti það gerst að þjóðin stæði frammi fyrir spurningunni: Vilt þú heimila lagningu sæstrengs? Eða: Vilt þú að íslenska ríkið greiði svo og svo miklar skaðabætur til framtíðar?

Þetta er einmitt vandinn sem við stöndum frammi fyrir. Ákvörðunin verður tekin núna til langrar framtíðar um eðli EES-samningsins og hvaða reglur við þurfum að fylgja þar.