149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:52]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var einkum kannski tvennt sem stakk mig, eða tvíþættar staðhæfingar, í ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar áðan sem mig langaði að gera að umtalsefni. Annars vegar laut það að hinu svokallaða belgíska máli þar sem a.m.k. mér virðist alveg ljóst að kæruefni Evrópusambandsins gagnvart Belgum eiga ekkert skylt við þau ágreiningsefni sem eru uppi í þessu máli og við höfum verið að ræða. Ég sé ekki betur en að þau kæruefni séu tvíþætt, það snúi annars vegar að sjálfstæði, við skulum kalla það orkustofnunar Belga og síðan að eigandaaðskilnaði á flutningsfyrirtækjum, þ.e. okkar Landsneti, og undan því ákvæði erum við reyndar undanskilin og erum með undanþágu fyrir. Mál Evrópusambandsins gagnvart Belgíu snýst ekki um nýjar tengingar á orkuvirkjum yfir landamæri eins og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er að gefa til kynna og finna því einhverja samsvörun með lagningu sæstrengs á Íslandi. Þetta er algerlega óskylt mál.

Hitt atriðið sem ég ætlaði að spyrja hann um lýtur hins vegar að þeirri staðhæfingu sem kom fram hjá honum áðan, að ACER hafi einhvers konar alræðisvald í þeim ágreiningsefnum sem hugsanlega kunna að koma upp á milli EES og ACER. Ég heyrði ekki betur en að þingmaðurinn staðhæfði að kæmi slíkur ágreiningur upp yrði lokaúrskurður um það ágreiningsefni hjá ACER sjálfu, þ.e. öðrum aðila ágreiningsins. Þá hef ég mislesið eitthvað og ætla að biðja hv. þingmann að finna þeirri staðhæfingu stað, vegna þess að ég fæ ekki betur séð en að ágreiningi sem hugsanlega kæmi upp á milli ESA og ACER yrði einfaldlega vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Um það er regluverkið alveg skýrt. Því bið ég hv. þingmann (Forseti hringir.) að svara því hvort hann haldi sig við þá staðhæfingu að ACER hafi einhvers konar alræðisvald í því samhengi.