149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst svara ég seinni spurningunni. Já, ég held mig við þá staðhæfingu að ACER hafi endanlegt vald í þeim málum. Það er reyndar rétt sem hv. þingmaður segir, það er hægt að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar og fjalla um það þar. En ef sameiginlega EES-nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að hún ætli að fara gegn niðurstöðu ACER, tilkynnir ACER það og ACER sættir sig ekki við það þá er það ACER sem úrskurðar, kærunefnd ACER. Og hverjir skipa hana? Það eru fulltrúar í ACER. Þannig að þar liggur endanleg niðurstaða.

Varðandi Belgíumálið finnst mér svolítið sérkennilegt að hv. þingmaður geti leyft sér að halda því fram að þetta varði ekki það sem við erum að ræða hér. Ég get eiginlega ekki svarað því betur en með því einfaldlega að lesa texta Evrópusambandsins sjálfs, hvers vegna er verið að fara í málaferli. Það á alveg sérstaklega við þá staðreynd að belgíski landsreglarinn, orkustofnun Belgíu, hefur ekki fengið vald til að taka bindandi ákvarðanir um raforku- og gasverkefni heldur getur bara komið með tillögur til stjórnvalda. Það sama á við um að skilyrði fyrir tengingu við raforku- og gaskerfi Evrópu skuli sett af belgískum stjórnvöldum fremur en af landsreglaranum, eins og orkupakkinn gerir ráð fyrir.

Það er með öðrum orðum skýrt af hálfu Evrópusambandsins að hugmynd belgískra stjórnvalda um að þau eigi að setja skilyrði fyrir tengingu við evrópska raforkukerfið sé ekki ásættanleg því að það sé landsreglarinn, orkustofnun Belgíu, fulltrúi ACER, sem tekur þær ákvarðanir.