149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:57]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að munnhöggvast endilega um það sem snýr að endanlegum úrskurði því að málið er einfaldlega þannig vaxið að þetta fer til sameiginlegu EES-nefndarinnar ef ESA og ACER koma sér ekki saman, en ekki þaðan aftur inn til ACER, ekki eins og ég les þennan texta. En ég ætla svo sem ekki að fara út í lengra mál með það.

Varðandi belgíska málið er það auðvitað alveg rétt og allt annað mál að verið er að finna að því að landsreglarinn í Belgíu, orkustofnun Belgíu, ef menn vilja nota það nafn, á að hafa þetta vald að segja til um skilyrðin fyrir notkuninni á tengingum en ekkert um nýjar tengingar á milli landa. Það er þar sem ég segi að samsvörunin eigi ekki við. Það er verið að reyna að láta líta þannig út að belgíska málið snúist með einhverjum hætti um sambærilega hluti og ákvörðun um sæstreng á milli Íslands og Evrópu. Það gerir það hreint ekki. Belgíska málið snýst ekkert um nýjar tengingar yfir landamæri.