149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð bara lesa þetta aftur: Skilyrði fyrir tengingu við raforku- og gaskerfi Evrópu skuli sett af belgískum stjórnvöldum. Óásættanlegt. Skilyrði fyrir tengingum við raforku- og gaskerfi Evrópu á að vera á forræði belgísku orkustofnunarinnar, útibús (Gripið fram í.)ACER. Skilyrði fyrir tengingu. Það er varla hægt að skilja þetta öðruvísi en að það eigi við um skilyrði fyrir tengingu.

Við höfum reyndar raundæmi sem við getum notað til að skýra þetta enn frekar og það er sæstrengur milli Kýpur og Grikklands gegnum Krít. Hvernig var farið af stað með það verkefni? Það var gegnum ACER. Fjárfestar söfnuðu fjármagni til að ráðast í þá framkvæmd, tilkynntu ACER að þeir væru tilbúnir, og hvað gerist þá? ACER tók boltann og fór í það að fylgjast með því að stjórnvöld á Kýpur og í Grikklandi myndu ekki leggja neinar hindranir í götu þess verkefnis.