149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[14:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Mig langar að reyna að fara vítt og breitt yfir sviðið hvað varðar umræðuna sem hefur átt sér stað bæði í dag og á þeim þingfundum sem voru lagðir undir orkupakkann í heild sinni áður en vorþingi var frestað. Staðreyndin er auðvitað sú að þau mál sem eru rædd hér sérstaklega í dag eru svo nátengd þingsályktunartillögunni sem var rædd í gær að vart verður þar á milli greint.

Í allri þessari umræðu, sem hefur verið töluverð, blasir við hverjum þeim sem horfir á þessi mál með bærilega opnum augum að verið er að gera hlutina í rangri röð. Það að orkustefna liggi ekki fyrir — menn hreykja sér af því að það sé byrjað að vinna hana í iðnaðarráðuneytinu — á sama tíma og við ætlum okkur að innleiða pakka sem þennan er verklag sem er ekki bjóðandi og ætti eitt og sér að vera nægjanlegt til þess að menn tækju þennan pakka í heild sinni, settu hann upp í hillu, kláruðu orkustefnu fyrir Ísland og nálguðust málið svo aftur með fastara land undir fótum. Það vantar m.a. inn í þessa umræðu okkar sviðsmyndagreiningu: Hvað svo? Því að við verðum að nálgast málið í umræðunni á þeim nótum að á einhverjum tímapunkti verði lagður sæstrengur. Staðan er bara sú að verði lagður sæstrengur verður staða okkar Íslendinga allt önnur en þau sífelldu hróp, sérstaklega í gegnum gærdaginn, gefa til kynna, þar sem reynt var að halda því fram að þetta hefði engin áhrif og við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur, við hefðum þetta allt á eigin hendi. Sú staða bara gjörbreytist. Stjórn okkar á orkumarkaðsmálum verður með allt öðrum hætti eftir að sæstrengur hefur verið lagður en er í dag.

Þess vegna vildi ég segja að það er alveg galið fyrirkomulag, galin tímaröð hlutanna, að vera að ganga frá þessu máli núna áður en við höfum komið okkur saman um orkustefnu fyrir landið. Þegar búið er að innleiða, þá er búið að innleiða. Það er bara þannig. Það lítur mjög skringilega út þegar hér kemur hver þingmaðurinn upp á fætur öðrum, talar fyrir því að innleiða pakkann að fullu á þann hátt að Evrópusambandið verði lukkulegt en ætlar síðan í beinu framhaldi að snúa sér við og fara að vinna gegn markmiðum þriðja orkupakkans.

Auðvitað er þetta ekki trúverðugt og eins og ég sagði í ræðu minni í gær verða núverandi stjórnvöld að gangast við króganum. Það er þeirra áhugamál að keyra þennan þriðja orkupakka í gegn. Það blasir við að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna vill að við undirgöngumst þriðja orkupakkann. Þá skiptir engu máli hvað hefur verið gert á fyrri stigum því að formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sagði í ræðu í gær — og ég bara get ekki annað en þakkað honum fyrir þá hreinskilni, og það var ekkert óskýrt í þeim efnum — að ein ástæðan fyrir því að virkja 102. gr., vísan málsins aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, væri sú að fram hefðu farið kosningar sem hefðu leitt fram annan þingvilja en verið hefði til staðar á fyrri stigum vinnu við innleiðinguna. Það voru engin vandræði með það. Ef núverandi ríkisstjórnarflokkar teldu þetta mál þess eðlis að skynsamlegt væri að koma sér undan því var alveg greinilegt að alla vega í röðum Sjálfstæðismanna væri það ekki neinum vandkvæðum bundið að nýta 102. gr. — ef skoðun þeirra væri sú að þetta mál væri ekki gott. Þá er bara gott og heiðarlegt að það liggi fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn sé áfram um að við undirgöngumst þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Það kom dálítið á óvart miðað við hvernig orðalag hæstv. utanríkisráðherra, sérstaklega, hafði verið bæði í vor og síðan aftur í gær. En það er gott að þetta sé komið fram og Sjálfstæðisflokkurinn hafi gengist við króganum.

Reynt hefur að draga það fram hverjir hagsmunir íslensks samfélags, íslenskrar þjóðar, íslenskra heimila, eru með innleiðingu þessa þriðja orkupakka svokallaða. Bent hefur verið á býsna vel rökstuddar áhyggjur fólks af því að líkur séu á að orkuverð — og er þá talað um sameiginlegan reikning fyrir orku og flutning orkunnar á endastað — hækki og þá sérstaklega eftir að sæstrengur hefur verið lagður. Það er m.a. það sem hefur farið töluvert í taugarnar á þeim sem hér stendur, að menn hafi verið algerlega ófáanlegir til þess að ræða þá stöðu sem upp kemur að Íslandi tengdu. Það hefur algerlega vantað inn í umræðuna og engar sviðsmyndagreiningar liggja þar undir til að einfalda þingmönnum að leggja mat á stöðuna.

Hvað kostnaðarhækkanir varðar liggur bara fyrir að eftirlitsgjald muni hækka. Mig minnir að það hafi verið hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem ég sé í hliðarsal núna, sem kom inn á það í umræðu fyrr í dag að töluverður halli væri af þeirri starfsemi hjá Orkustofnun. Það er þá tvöföld hækkun sem er í pípunum, annars vegar að vinna upp þann halla sem þegar er til kominn og síðan vegna þess kostnaðarauka sem til kemur við styrkingu Orkustofnunar eða aukningu á umfangi eftirlitshlutverks þeirrar stofnunar. Það hlýtur að blasa við.

Mikið hefur verið talað um það, sérstaklega af formanni utanríkismálanefndar Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokksins, að mikið hagræði sé af því fyrir almenning að geta skipt um raforkusala. Það hefur verið hægt um langa hríð. Ég treysti mér ekki til að tilgreina upp á ár hvenær sú heimild opnaðist, ég bara man það ekki. En það hefur verið hægt árum saman og hefur ekkert með þessa innleiðingu hér í dag að gera, ekki neitt.

Hert eftirlit hefur verið nefnt. Hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, sagði að almenningur myndi njóta þess að eftirlit Orkustofnunar yrði hert verulega. Það félli vel að stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það kom mér svolítið á óvart. Ég vissi bara ekki að eftirlit Orkustofnunar væri vandamál á markaðnum. Ég hef heyrt úr ótrúlega mörgum áttum að margir líta á eftirlitsiðnaðinn sem mein í íslensku samfélagi sem stækki og verði stöðugt að meiri kostnaðarauka en ég hef aldrei heyrt af því að eftirlit Orkustofnunar hafi verið sérstakt vandamál í þessum efnum. En það mun tíminn leiða í ljós, hvort af þeim kostnaðarauka muni hljótast mikið hagræði fyrir íslensk heimili. Ég er efins um það, svo að vægt sé til orða tekið.

En síðan er nauðsynlegt fyrir okkur að spyrja okkur spurningarinnar: Og hvað svo? Nú stefnir í — ef allt gengur fram með þeim hætti sem stjórnarliðar lýsa hér fjálglega í dag og í gær, að engan bilbug sé á neinum að finna þar hvað varðar samþykkt og innleiðingu þessa orkupakka — að hann verði samþykktur hér á mánudaginn næstkomandi og innleiddur að fullu. Þá get ég ekki sagt annað en að ég vona að ég og við í Miðflokknum höfum rangt fyrir okkur og stjórnarliðar rétt fyrir sér hvað hina svokölluðu fyrirvara varðar. En ég held að það verði nú því miður öfugt. En hvað svo? Ég spyr aftur. Það vantar algjörlega greiningu á því hvað tekur við, hvernig landið muni liggja að Íslandi tengdu, verði lagður hér sæstrengur. Það er hlutur sem mér hefði þótt lágmark að við þingmenn hefðum bærilega stöðu til að glöggva okkur á.

Síðan er annað. Það er orkupakki fjögur sem nú hefur verið afgreiddur frá ráðherraráðinu. Það er auðvitað þannig að þegar enginn asi er á málinu — það hefur verið sagt hér margoft að menn hafi verið að undirbúa það síðan 2009. Bíddu, það getur ekki skipt miklu þótt menn tefji afgreiðslu málsins eitthvað aðeins lengur; en það að fara ekki í ígrundaða, djúpa skoðun á því sem nú liggur fyrir í þessum fjórða orkupakka er auðvitað verklag og vinnubrögð sem maður getur ekki annað en gagnrýnt. Ein meginrökin fyrir því að samþykkja orkupakka þrjú hjá mörgum þingmönnum eru þau að við höfum samþykkt orkupakka eitt og tvö. Þá blasir við að þegar orkupakki fjögur kemur á færibandinu verða ein meginrökin fyrir því að samþykkja hann þau að við höfum samþykkt orkupakka þrjú. Það sér hver maður. Verst að allir verða búnir að gleyma þessum athugasemdum þegar kemur að því að stimpla orkupakka fjögur í framtíðinni.

Í samskiptum við Evrópusambandið og Evrópuráðsstofnanir verðum við að leyfa okkur að segja það sem flestir hugsa, sem er að sporin hræða. Evrópusambandið hefur með einum eða öðrum hætti lag á því að ganga stöðugt lengra hvað samræmingu og samhæfingu svæðisins varðar. Þetta hefur verið kallað salamí-aðferðin, að skera litla sneið af fullveldi hverrar þjóðar í einu þannig að enginn stuðist illa. Á endanum verður ekki aftur snúið þegar það margar sneiðar hafa verið sneiddar af fullveldinu að menn eru nokkurn veginn komnir inn í sambandið og samhæfinguna þar að fullu. (Gripið fram í: Brexit.) Brexit er kallað hér úr hliðarsal, já, það gengur ekki átakalaust. En það er einhver hreyfing á því núna. Það kæmi mér ekki á óvart að frú Merkel væri að skrifa nýjan samning á meðan við tölum um orkupakkann.

Þessi ásælni Evrópusambandsins í átt að stjórnlyndi gagnvart högum aðildarríkjanna og síðan áfram þeirra ríkja sem eru í samstarfi við Evrópusambandið í gegnum EES-samninginn: Það sér ekkert fyrir endann á því og við verðum að spyrna við fótum. Ef við nýtum ekki þær heimildir sem eru skrifaðar í EES-samninginn núna, af hverju í ósköpunum ætti Evrópusambandið að telja líkur á því að við ætluðum að fara að nota þær einhvern tíma síðar? Þetta er bara rétt eins og það voru deildar meiningar um það hvort 26. gr. stjórnarskrár Íslands hefði raunverulegt gildi. Hún hafði aldrei verið nýtt fyrr en kom að þeirri stöðu í tengslum við svokölluð fjölmiðlalög að forseti neitaði lögum staðfestingar. Síðan hefur það gerst ítrekað.

En á einhverjum tímapunkti eru flest ákvæði virkjuð og engin ástæða var til annars en að nýta 102. gr. EES-samningsins núna. Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera það ekki liggur nú fyrir og það held ég að sé tómt mál um að tala að vikið verði frá þeirri skoðun. En það var sannarlega áhugavert í gær að átta sig á að ákvörðunin hefði hæglega getað orðið að veruleika ef ríkisstjórnarflokkarnir væru þeirrar skoðunar að þetta mál væri ekki þeirra, ef þeir stæðu ekki með því að fullu, ef þeir hefðu ekki trú á því. Og það er bara gott að það liggi fyrir.

Að lokum langar mig að segja í tengslum við þetta allt saman að við sjáum ekki alltaf öll áhrif fyrir. Það er það sem ég hef kannski mestar áhyggjur af í þessu máli. Ég get alveg sagt það heiðarlega að ég vona svo innilega að stjórnarliðar sem hafa talað hér hafi rétt fyrir sér og við í Miðflokknum höfum verið að mislesa stöðuna, að áhættan og hætturnar séu ekki eins og við metum þær. Ég vona bara að ég hafi rangt fyrir mér. En ég er hræddur um ekki. Og staðan er auðvitað sú að við sjáum ekki öll áhrif fyrir. Hverjum hefði t.d. dottið það í hug fyrir 25 árum að spá því að að meginhluta til vegna reglna Evrópska efnahagssvæðisins myndi hér á síðari tímum bankakerfið vaxa Íslandi svo yfir höfuð að ekkert fengist við ráðið. Heilt bankakerfi fór á hausinn með tilheyrandi kreppu og afleiðingum sem af því hlutust. Það hefði engum komið til hugar að taka undir að slík svartsýnisspá gæti orðið raunin. Menn hefðu sagt, eðlilega: Fjórfrelsið fjallar ekkert um þetta. Fjórfrelsið heimilar ekkert bönkunum að vaxa í tólffalda landsframleiðslu. Fjórfrelsið er ekkert að orsaka þetta. En svo er raunin bara sú að það er akkúrat það sem gerist. Hér óx bankakerfið okkur langt yfir höfuð með afleiðingum sem við þekkjum öll frá þeim tíma sem það síðan missti fótanna og hrundi.

Það eru þessi ófyrirséðu atriði sem mér þykja ámælisvert, svo að vægt sé til orða tekið, að enginn stjórnarliði, enginn þingmaður Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks eða þingflokks Vinstri grænna — ég er ekkert að draga samfylkingarflokkana fjóra í stjórnarandstöðunni inn í þetta, við því var að búast að þeir væru ánægðir með málið, en að enginn þingmaður stjórnarflokkanna sjái ástæðu til þess að hafa neinn vara á sér í þessum efnum, það kemur mér leiðinlega á óvart.

Ég vil undir lok þessarar ræðu minnar ítreka: Við verðum að huga að þeim hættum sem eru í þessu máli. Mér þykja þær hafa verið mjög vanreifaðar og ég bara ítreka: Ég vona að áhyggjur okkar Miðflokksmanna séu ekki á rökum reistar. Ég vona að þingmenn stjórnarflokkanna hafi rétt fyrir sér hvað það varðar, að það sé engin áhætta í neinu af þessu. Þá minni ég bara á þetta 25 ára gamla dæmi um bankakerfið sem síðan hrundi á grundvelli þeirra reglna sem enginn sá fyrir að gætu haft þau áhrif þegar við undirgengumst reglurnar. Það var varað við býsna mörgu í umræðu hér en það var blásið á það allt.