149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[14:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja í ljósi þeirra mála sem liggja fyrir og við erum að taka ákvörðun um. Þriðji orkupakkinn var ræddur í gær og núna erum við að ræða hvort Orkustofnun eigi að vera sjálfstæð, frumvarp þess efnis, svo er ein þingsályktunartillaga og frumvarp sem hafa að gera með fyrirvara um að ekki verði lagður neinn sæstrengur nema með samþykki Alþingis. Það þýðir að áður en lagður yrði sæstrengur myndi Alþingi þurfa með þingsályktun, eins og kom skýrt fram í máli hæstv. ráðherra, að samþykkja það sem þýðir að þá gefst aftur tækifæri, rétt eins og Miðflokkurinn beitti málþófi í vor um þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann, til að gera það ef á að fara að leggja sæstreng. Meira að segja Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson segja að álitaefni þeirra komi í rauninni ekki til álita fyrr en sæstrengurinn verður lagður þannig að með því að setja inn þau tvö mál sem er verið að samþykkja varðar það ekki stjórnarskrána fyrr en tekin verður ákvörðun um sæstreng og sú ákvörðun verður ekki tekin nema með samþykki Alþingis ef við samþykkjum þau tvö aukamál sem fylgja.

Mig langar að fá það frá þingmanninum. Ég talaði við hv. þm. Ólaf Ísleifsson, samflokksmann Bergþórs Ólasonar áðan. Hann sagði: Þau gera ekkert slæmt. Hann vill meina að þau geri ekki nóg en þau geri ekkert slæmt og jafnvel megi setja þennan fyrirvara sem býður upp á að við getum áfram haldið uppi vörnum. Nú er búið að samþykkja af þingflokki Miðflokksins að þetta mál verði klárað, að þriðji orkupakkinn verði kláraður. Þau hafa skrifað undir samkomulag sem þýðir að valdið er núna hjá forseta að klára málið. Miðflokkurinn getur ekki haldið áfram málþófi í þessum ályktunum, hann er búinn að semja frá sér þá heimild.

En með því að samþykkja þau tvö mál sem við erum að ræða um þennan fyrirvara við sæstrenginn, að hann þurfi samþykki Alþingis, færist varnarlínan. Skilur þingmaðurinn þetta svona og er hann hlynntur því að alla vega samþykkja þann fyrirvara inn og að hann sé góður í sjálfu sér þótt hann sé ekki nægur að hans mati?