149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[14:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held ég hafi náð meginatriði spurningarinnar en ég held að hv. þm. Jón Þór Ólafsson misskilji hvar áhyggjur mínar liggja akkúrat í þeim efnum. Ég skrifaði um þetta grein sem birtist í Morgunblaðinu í síðustu viku, ef ég man rétt, frekar en þarsíðustu. Áhyggjur mínar þarna liggja í samningsbrotamáli, í rauninni ekki stjórnarskráratriðunum, þeim hluta sem hv. þingmaður ræddi í andsvari sínu.

Áhyggjur mínar liggja í því að á grundvelli fjórfrelsisreglnanna verði reist samningsbrotamál á hendur okkur ef við leggjumst þverir eins og blasir við að ætlunin sé, að samþykkja málið og innleiða, en í rauninni fara síðan að einhenda sér í það, ef svo má segja, að vinna gegn markmiðum innleiðingarinnar frá sjónarhóli Evrópusambandsins.

Ég held að það sé í sjálfu sér enginn skaði af þeim málum sem eru undir í dag — þá meina ég af fyrirvarahlutanum. En ég er hræddur um að hann hafi ekki þá vigt sem ríkisstjórnarflokkarnir telja raunina vera og við verðum berskjaldaðir þegar þar að kemur fyrir því. Ég held ég hafi orðað það þannig í greininni að valkosturinn þegar þarna er komið, þegar kemur að því að þingið taki afstöðu til lagningar sæstrengs, verði: Viljum við sæstreng eða viljum við skaðabætur? Ég reyndi að færa rök fyrir því sjónarmiði í greininni. Ég vona að þetta svari spurningunni.