149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[14:39]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Þá komum við einmitt að öðrum atriðum, þ.e. inn í framtíðina. Nú tala menn um að fjórði orkupakkinn og fimmti orkupakkinn komi o.s.frv. og þar heldur innleiðingarferlið áfram, um sameiginlegan raforkumarkað í Evrópu. Ef það kæmi sæstrengur værum við síðan orðin partur af honum.

Það er vinna í gangi sem setur upp fullt af vörnum við þau atriði sem fólk er hrætt við. En hv. þingmaður er hræddastur við, heyrist mér, þetta samningsbrotamál. Það er eitt. Annað er að sumir eru hræddir um að þetta sé einhvern veginn afsal á heimildum okkar yfir náttúruauðlindum, að við verðum þvinguð til að virkja meira, það sé ekki hægt sé að stöðva. Þá ertu kominn með náttúruverndina.

Það er einmitt vinna í gangi sem hv. þingmaður hefur stundum stigið inn í í staðinn fyrir hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hann mætti á fundi. Þar er verið að tryggja í stjórnarskránni vernd á náttúrunni, tryggja yfirráð okkar yfir eigin náttúruauðlindum og verið að festa að ef það er valdframsal í einhvers konar alþjóðasamstarfi þá verði þjóðin að samþykkja í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu að slíkt skuli fara fram.

Telur hann ekki allt þetta til bóta? (Forseti hringir.) Og ég bæti við: Ásamt því að þjóðin geti kallað öll mál til sín í þjóðaratkvæðagreiðslu og stöðvað þau ef það er þjóðarvilji til?