149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[14:48]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála hv. þingmanni um að fjórfrelsið heimili skaðabótaskyldu vegna neitunar á tengingum milli landa eða heimili þá á móti að þvinga fram slíka tengingu. Nú kom fyrir okkur í utanríkismálanefnd Bjarni Már Magnússon, sem er prófessor í hafrétti o.s.frv., og rakti það hvernig hafréttarsáttmálinn — ég reyndi þessa spurningu til annars hv. þingmanns en komst lítið áfram — tryggir að ríki hafi ávallt óskoruð yfirráð yfir landhelginni þegar kemur að línulögnum og öðru slíku.

Þá spyr ég: Hvernig getur einhver Evrópudómstóll, þótt hann sé á vegum milliríkjasamnings eða -sambands, yfirgengið þennan rétt og búið til skaðabótaskyldu á hendur ríki sem er að hampa þessum rétti sínum og vinna í samræmi við hann og hefur þar með neitað um slíka línulögn?

Þetta er einfalt mál. Þarna er verið að ýja að því að þessi hafréttarsamningur gildi ekki, þvert ofan í Vínarsamninginn um milliríkjasamskipti.

Bjarni var mjög skýr með að þetta er algerlega þannig að hafréttarsáttmálinn útilokar línulögn, svo fremi sem þing eða til þess bær aðili heimilar slíkt ekki. Hvernig getur skaðabótaskyldan þá komið til?