149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[14:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni andsvarið. Það er nú fyrst að segja að það eru bara ekki allir sammála prófessor Bjarna Má í þessum efnum. Ég var svo óheppinn að ég ætlaði að kalla upp í símann hjá mér ágætisklásúlu sem einn efasemdarmanna um sjónarmið Bjarna setti fram en þá var ég rafmagnslaus. Það er orkustefnan innan dagsins sem vantar hjá mér.

Til að svara spurningunni er fyrst að segja að það eru einfaldlega ekki allir sammála um þessa afstöðu Bjarna hvað hafréttarsáttmálann varðar og hvort gangi framar í réttindaröð hafréttarsáttmálinn eða regluverk Evrópusambandsins sem við erum að undirgangast. Það er þess vegna sem við teljum raunverulega hættu vera á því að samningsbrotamál, þar sem sóttar verða skaðabætur á hendur íslenska ríkinu, verði raunin.

Horfum á hagsmunina sem eru undirliggjandi í sæstrengslagningu eins og þarna er og berum það saman við tölurnar sem hafa komið út úr skaðabótum í tengslum við samningsbrotamál, bara svo að dæmi sé tekið, í tengslum við ófrosna kjötið sem er nærtækt: Ef ég man rétt voru það 3 milljarðar. Ég er ekki með töluna á hreinu en það var alvörutala sem tengdist hráa kjötinu.

Það þarf enginn að láta sér detta í hug að ef staða okkar er veikt að óþörfu hvað þetta varðar verði fjallað um einhverja smáaura. Ég held að við verðum hið minnsta að hafa opin augun gagnvart þessari áhættu. Því að ef okkur tekst illa upp í þessum efnum, sem mér sýnist því miður stefna í að verði niðurstaðan á mánudaginn, verðum við með mun verri vígstöðu (Forseti hringir.) gagnvart slíkum málarekstri en að þriðja orkupakkanum óinnleiddum.