149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[14:53]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Einhver ósammála? Já, það kann vel að vera. En nú er Vínarsamningurinn tiltölulega skýr og hafréttarsáttmálinn er skýr og það er almenn regla að þessir stóru sáttmálar eins og hann séu þess eðlis að sáttmálar um viðskipti eða orkuflutninga eða annað slíkt toppi hann ekki. Ég á því eftir að sjá þann lögfræðing sem kemur með rök fyrir því að þetta sé öðruvísi en Bjarni Már heldur fram.

Ég vil svo benda á að þessi innri markaður Evrópu snýst ekki um sölu á orku sem er ekki til reiðu þannig að hægt sé að þvinga hana fram; hann snýst heldur ekki um þvingaðar línulagnir. Bæði inniheldur EES-samningurinn fullkomlega eðlilegar klásúlur um yfirráð okkar yfir þessum hlutum og Evrópusambandið hefur heldur ekki stundað slíkar þvinganir gagnvart öðrum ríkjum.