149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[14:54]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hér í fyrsta skipti með tölvu upp í pontu en það er af því að ég fann það sem ég ætlaði að koma að í fyrri atrennu. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp stuttar klásúlur sem eru andsvar við sjónarmiðum Bjarna Más Magnússonar prófessors. Nokkur grundvallaratriði.

Í fyrsta lagi:

„Sem sérsamningur gengur EES-samningurinn framar almennum þjóðaréttarsamningum. Því er mikilvægt að hafa í huga að Hafréttardómstóllinn eða aðrar alþjóðastofnanir munu ekki leysa úr ágreiningsmálum vegna skuldbindinga Íslands tengdum EES-samningnum, heldur stofnanir ESB.“

Í öðru lagi:

„Almennar reglur þjóðaréttar eiga ekki við á sviði Evrópuréttar sem er sérstaks eðlis. Þetta er alþekkt og hefur verið skýrlega áréttað í dómaframkvæmd Evrópuréttarins.“

Í þriðja lagi:

„Mikilvægt er að undirstrika að það verður ekki Hafréttardómstóllinn eða slíkar alþjóðlegar stofnanir sem munu leysa úr ágreiningsmálum vegna EES-samningsskuldbindinga Íslendinga, heldur stofnanir ESB og allir lögfræðingar mega vita hvernig samrunaferlinu hefur verið stýrt „í samhengi við og í ljósi markmiðs og tilgangs“ samninga og gerða sem um ræðir á því réttarsviði. Þar hefur Evrópudómstóllinn ekki látið sitt eftir liggja heldur rutt brautina með „dýnamískri“ aðferðafræði.“

Það eru einmitt þessi sjónarmið (Forseti hringir.) sem eru sett fram. Þetta eru orð héraðsdómarans Arnars Þórs Jónssonar. Menn mega hrista hausinn yfir því að Arnar Þór Jónsson sé nefndur til sögunnar og mér þykir það miður, en mér þótti þetta engu að síður ekki verri rökstuðningur en sá sem Bjarni Már setti fram varðandi hafréttarsáttmálann.