149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[14:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fara aðeins yfir nefndarálit í máli nr. 782, nefndarálit meiri hlutans með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun. Þar kemur fram:

„Með 6. gr. frumvarpsins eru lagðar til hækkanir á eftirlitsgjöldum. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að um umtalsverða hækkun væri að ræða.“

Það sem mér þykir ámælisvert við meirihlutanefndarálitið, herra forseti, er að það er ekki tekið fram hversu mikla hækkun er um að ræða. Í því sambandi er rétt að skoða minnihlutaálitið sem Ólafur Ísleifsson framsögumaður og Jón Þór Þorvaldsson skrifa undir. Þar kemur fram að um sé að ræða 45% hækkun á núverandi gjaldtöku Orkustofnunar vegna raforkueftirlits.

Annað er, og kemur einnig fram í nefndaráliti minni hlutans, að það eru engin gögn sem fylgja þessari tillögu að lagabreytingum sem staðfesta eða sýna fram á þörf fyrir slíka hækkun á raforkueftirlitsgjöldum. Ég verð að segja það, herra forseti, að það er ámælisvert að ekki skuli vera rökstutt hvers vegna þurfi að hækka gjaldið um 45%.

Í ákvæðinu felst auk þess að greiðendur, þ.e. orkufyrirtækin, fái heimild til að varpa þessum kostnaði á neytendur þannig að þetta fer beint út í verðlagið og hækkar raforkuverð til heimila og fyrirtækja í landinu. Þeir sem halda því fram að orkupakki þrjú feli ekki í sér neina hækkun á raforkuverði hafa ekki lesið þetta nægilega vel og ekki kynnt sér málið nægilega vel vegna þess að það er alveg kristaltært að þessi hækkun mun fara beint út í verðlagið.

Maður spyr sig líka í þessu samhengi: Hvers vegna þarf að auka svo við þetta eftirlit? Er eitthvað slæmt í framkvæmdinni í dag sem krefst þess að auka eftirlitið með þessum hætti? Búum við ekki við tiltölulega lágt raforkuverð hér á landi í samanburði við aðrar þjóðir og eru það ekki ein af þeim forréttindum að fá að búa í þessu landi að við búum við lágt raforkuverð?

Í þessu sambandi virðist þurfa að auka eftirlitið en það er enginn rökstuðningur um hvers vegna og heldur ekki rökstutt hvers vegna hækkunin þurfi að vera þetta mikil. Það er fróðlegt að skoða í þessu samhengi umsögn HS Orku við málið. Þar segir á bls. 3, með leyfi forseta:

„Með 6. gr. frumvarps um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun […] er enn fremur lögð til 45% hækkun á raforkueftirlitsgjaldi. Um leið og viðurkennt skal að sannarlega fylgi opinber kostnaður eftirliti samkvæmt raforkulögum líkt og öðrum lögum þá telur HS Orka rétt á að benda á að hækkunin er umtalsverð og viðbúið að hún skili sér í verði á raforku og muni á endanum leggjast á notendur raforku, bæði heimili og fyrirtæki.“

Þetta segir í umsögn HS Orku. Hérna kemur það skýrt fram frá einu stóru orkufyrirtæki að þessi hækkun fer beint út í verðlagið og kemur til með að hækka raforkuverð til heimila og fyrirtækja í landinu.

Ég segi enn og aftur, herra forseti: Þeir sem hafa haldið því fram að það fylgi engin hækkun raforkuverðs orkupakka sjá hið gagnstæða hér svart á hvítu.

Ég vil næst víkja að einu sem mér finnst nauðsynlegt að koma á framfæri vegna þess að ég hlustaði á ræðu hæstv. forsætisráðherra í gær og hafði ekki tök á því að bregðast við henni en þar sagði hún að ekkert nýtt hefði komið fram í málinu frá því í vor. Ég vil í fyrsta lagi segja að það kom nýtt fram hér í gær og vakti töluverða athygli, að mínu viti, í máli hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar. Hann sagði að sú leið væri fær að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar en hann teldi ekki þörf á því. Þarna grípur hæstv. fjármálaráðherra fram fyrir hendur á hæstv. utanríkisráðherra sem hefur varað eindregið við því að fara með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina, það geti komið EES-samningnum í uppnám o.s.frv. Hæstv. fjármálaráðherra er á annarri skoðun og telur að þessi leið sé fær en hann telji hins vegar ekki þörf fyrir hana. Það er mjög einkennilegt í svo stóru máli sem þessu að hæstv. ráðherra skuli ekki telja þörf fyrir það. En þetta er nýtt í málinu og nauðsynlegt að koma því á framfæri.

Ég vildi einnig bregðast við ræðu hæstv. forsætisráðherra í gær. Hún er formaður flokks sem hefur barist fyrir samfélagslegu eignarhaldi á orkuauðlindum landsins. Hún er formaður flokks sem hefur alfarið hafnað einkavæðingu grunnstoða samfélagsins, alfarið hafnað því að markaðurinn og markaðslausnir ráði dreifingu grunnþjónustu.

Einn sameiginlegur orkumarkaður, einkafyrirtæki sjá um rekstur orkufyrirtækja og dreifingu orkunnar, framboð og eftirspurn ákveða verð til neytenda, öll íhlutun ríkisvaldsins er bönnuð og ekki hvað síst er regluverkið hugsað til að fjarlægja hindranir fyrir nýjar virkjanir ef orkan skilgreinist sem endurnýjanleg. Og líkt gildir um vatnsaflið, jarðvarma og vindorku.

Þetta er allt það sem felst í orkupökkum Evrópusambandsins og er nákvæmlega allt saman andstætt stefnu og hugsjónum Vinstri grænna, enda greiddu þeir atkvæði á móti orkupakka eitt og tvö. En af einhverjum ástæðum sem ekki hafa komið fram styðja þeir nú orkupakka þrjú. Það er full ástæða fyrir þingmenn Vinstri grænna að svara því hvers vegna þeir styðja núna orkupakka þrjú en voru á móti orkupakka eitt og tvö frá Evrópusambandinu.

Ég vil einnig koma aðeins inn á álitsgerð sem Tómas Jónsson hæstaréttarlögmaður kom á framfæri þegar hann mætti á fund utanríkismálanefndar. Með leyfi forseta:

„Í minnisblaði sem Tómas lagði fyrir nefndina kemur fram að Evrópudómstóllinn (ECJ) beiti jafnan svokölluðum markmiðsskýringum við túlkun á lögum og reglugerðum sambandsins, þ.e. horfi til þess hvert markmið með löggjöfinni er, og bendir hann máli sínu til stuðnings á dómafordæmi. Þannig hafi Evrópudómstóllinn á sjöunda áratugnum úrskurðað að lög sambandsins væru framar lögum aðildarríkja þótt ekkert hafi verið um það finna í Rómarsáttmálanum, stofnsáttmála Evrópusambandsins. „Dómstóllinn komst einfaldlega að þeirri niðurstöðu að Evrópusambandið gengi ekki upp nema reglur væru svoleiðis.““

Þegar hæstv. forsætisráðherra leggur áherslu á að sett verði auðlindaákvæði sem geti hindrað regluverk, þá eru nú Íslendingar einu sinni aðilar að EES-samningnum og hafa skuldbundið sig til að hlíta honum einhliða. Undir forsæti Vinstri grænna er verið að greiða fyrir því að stjórn og skipulag og það sem viðkemur orkumálum þjóðarinnar verði fært til Brussel með því að við undirgöngumst orkupakkann og við þurfum þá að hlíta því regluverki sem þaðan kemur. Það mun örugglega hafa þau áhrif að skerða lífsgæði almennings hér á landi vegna þess að verði sæstrengur lagður eru miklar líkur á því að raforkuverð hækki, það er búið að sýna fram á það. Þetta eru atriði sem koma manni verulega á óvart að Vinstrihreyfingin – grænt framboð skuli fylgja eftir, sérstaklega í ljósi þess, eins og ég sagði áðan, að þau voru á móti málinu í upphafi.

Það er einnig fróðlegt að skoða minnisblað sem ég fann frá Evrópusambandinu vegna innleiðingar þriðja orkupakkans. Þetta minnisblað hefur að geyma spurningar og svör og er frá því í mars 2011. Þar kemur fram atriði sem er mikilvægt að komi fram og hefur verið nefnt hér, en hérna sjáum við það alveg svart á hvítu beint frá Evrópusambandinu. Það er t.d. spurt hér: „Hvað er nýtt í þriðja orkupakkanum?“ Og svarið er: „Skilvirkur aðskilnaður orkuframleiðslu og það að auka fyrir samtengingu raforkudreifikerfa.“

Síðan er rætt um aukna neytendavernd og stofnun sjálfstæðrar eftirlitsstofnunar, sem er þá ACER.

Ég hef nú staldrað svolítið við þessa auknu neytendavernd vegna þess að ég tel að hún hafi verið eins konar gulrót til þess að samþykkja orkupakka eitt og tvö á sínum tíma, loforð sem hafi síðan ekki staðist. Og hver er á móti neytendavernd? Þess vegna var þetta samþykkt á sínum tíma. Það var sagt að þetta myndi hafa það í för með sér að raforkuverð myndi lækka, það væri hægt að skipta um raforkusala o.s.frv. Hver er raunin? Hún er sú að það er nánast enginn ávinningur af því að skipta um raforkusala. Ég heyrði af einu ágætu dæmi fyrir örstuttu. Það var kona sem áætlaði að skipta um orkusala fyrir sitt heimili og ávinningurinn var heilar 38 kr. á mánuði. Það var það mesta sem hún gat lækkað sinn raforkureikning um.

Við sjáum því að þetta hefur ekki staðist. Það má alveg segja að eins og þetta var lagt fram á sínum tíma hafi menn verið blekktir með það að þetta myndi verða svo mikill ávinningur fyrir neytendur. Það var það bara ekki og er það ekki í dag.

Síðan er ein spurning í þessu minnisblaði frá Evrópusambandinu sem hljóðar svona: „Hvers vegna þarf eftirlit þriðja aðila með dreifiveitum?“ Þá er svarið frá Evrópusambandinu: „Til að tryggja skilvirka samkeppni skulu rekstraraðilar flutningskerfa leyfa öllum raforku- og/eða gasveituaðilum“ — Íslendingar eru undanþegnir gasinu — „aðgang að flutningskerfinu án mismununar til að sinna viðskiptavinum sínum. Þetta er meginreglan um aðgang þriðja aðila að dreifikerfum.“

Þetta hefur það í för með sér að það lendir á skattgreiðendum að greiða aðgang inn á kerfið fyrir einkaaðila og það mun að sjálfsögðu fara út í verðlagið, samanber eftirlitsgjaldið sem ég nefndi áðan.

Herra forseti. Vissulega er það rétt að reglugerð nr. 714/2009, um samtengingu landa, hefur ekki raunhæfa þýðingu á meðan ekki er kominn sæstrengur á Íslandi. En það sem er hins vegar verið að gera núna og það sem stjórnvöld eru að leggja til og keyra í gegnum þingið, ríkisstjórnarflokkarnir og Samfylkingin og Píratar og Viðreisn styðja heils hugar er að innleiða — afsakið, það er kannski einn þingmaður Pírata sem er á móti þessu og það er gott og vel — er að innleiða hugmyndafræði. Það er hugmyndafræðin sem er verið að innleiða. Það eru markmiðin og verkfærin sem lúta einum sameiginlegum og samtengdum orkumarkaði á EES-svæðinu. Það er þetta sem skiptir verulegu máli.

Þá er nauðsynlegt að svara ákveðnum grundvallarspurningum sem ekki hefur verið svarað. Ein af þeim er t.d. hvort það sé ástæða til að breyta því farsæla módeli sem við höfum byggt upp í 60 ár þar sem hagnýting orkuauðlinda byggir á hringrás verðmæta frá stórnotenda til starfsmanna hans, til afleiddra starfa o.s.frv. Viljum við hætta að sýna góða samkeppnishæfni í formi lægra orkuverðs vegna mikillar raforkuframleiðslu fyrir vaxandi greinar eins og landeldi og gagnaver, orkufrekan matvælaiðnað o.s.frv.? Viljum við stuðla að því að hugsanlega dragi úr starfsemi garðyrkjubænda? Viljum við breyta þessu módeli okkar sem hefur reynst okkur vel þannig að framvegis renni stærsti hluti orkuframleiðslunnar í gegnum örfá fyrirtæki og skapa þar með mjög fá afleidd störf vegna hagnýtingar á orkuauðlindum landsins? Viljum við að talsvert færri njóti bættra og betri lífskjara með hagnýtingu orkuauðlinda Íslands en hafa gert síðastliðin 60 ár?

Við eigum ekkert sameiginlegt með þessum stóra raforkumarkaði í Evrópu. Við höfum notið þeirra forréttinda, eins og ég nefndi áðan, að búa í landi þar sem raforkuverð er tiltölulega lágt. Við höfum séð að innleiðing orkupakka eitt og tvö hefur ekki verið okkur farsæl. Raforkuverðið hefur hækkað. Neytendaverndin er nokkurs konar fyrirsláttur vegna þess að hún hefur ekki gert það að verkum að hægt sé að lækka raforkureikninginn með því að skipta um orkusala. Það svarar ekki kostnaði.

Það verður að segjast eins og er að það er nokkuð undarlegt hvers vegna ríkisstjórnarflokkarnir fara þá leið að keyra þetta mál í gegn þegar við höfum þá leið að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar og fá undanþágu frá þessu. Það er þjóðinni fyrir bestu. Það er mín staðfasta trú að það sé þjóðinni fyrir bestu.

Ríkisstjórnin hefur gengið hart fram, eins og ég nefndi hér, við að sannfæra okkur um að upptaka orkupakka þrjú skipti ekki máli þar sem ekki hefur verið lagður sæstrengur milli Íslands og meginlands Evrópu. En ríkisstjórnin hefur heldur ekki nefnt hvers vegna við ættum að taka upp orkupakka þrjú. Hver er ávinningur Íslands af því að innleiða þessar Evrópureglugerðir í orkumálum? Við höfum ekki fengið svar við því. Þess vegna er nauðsynlegt að ríkisstjórnin skýri mál sitt betur, segi okkur sem höfum miklar efasemdir og erum á móti þessu máli hvers vegna eigi að fara þessa vegferð. Það hefur verið bent á það að EES-samningurinn sé í uppnámi. Það er einkum utanríkisráðherra sem hefur komið því á framfæri. En þá kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir að sú leið sé algjörlega fær, að fara með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina, en hann telur ekki þörf á því einhverra hluta vegna sem er nú frekar einkennilegt.

Maður spyr sig á hvaða vegferð ríkisstjórnin er í þessu máli. Íslendingar eru sjálfstæð þjóð í harðbýlu landi og eiga ekki að láta embættismenn hjá Evrópusambandinu ráða því hvernig við nýtum okkar mikilvægu raforkuauðlind og verðleggjum hana. Það styttist í atkvæðagreiðslu á Alþingi um þriðja orkupakkann. Hún fer fram þann 2. september nk. (Forseti hringir.) Þá kemur í ljós, herra forseti, hvaða þingmenn standa með þjóðinni.