149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[15:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að taka aðeins nýja nálgun á þær spurningar sem ég hef verið að spyrja varðandi það að auka varnir, sem er í boði, um náttúru landsins, náttúruauðlindir og umsjón okkar yfir því hvernig fullveldisframsali er háttað, aðkomu þjóðarinnar að slíku og aðkomu þjóðarinnar að öllum málum þar sem henni finnst stjórnmálamenn fara gegn vilja sínum. Þetta allt saman er í boði fyrir lok þessa kjörtímabils, að innleiða það í stjórnarskrá, verkefni sem Katrín Jakobsdóttir setti á fót. Það er í stjórnarsáttmálanum og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er fyrir Miðflokkinn í þeirri vinnu.

Ég hef verið að spyrja af því að þarna eru varnir. Nú er Miðflokkurinn búinn að skrifa undir það að þriðji orkupakkinn verði kláraður og afsala sér málþófsréttinum þannig að málið verður klárað 2. september. Eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson nefnir eru aftur á móti fleiri varnir í boði fyrir lok kjörtímabilsins. Fjórði og fimmti orkupakkinn koma þannig að við þurfum að festa í stjórnarskrána varnir hvað varðar náttúruauðlindir og slíkt.

Ég ætla að taka trúarlegan vinkil á þetta, svo við kryddum þetta, þar sem hv. þingmaðurinn er trúaður, ef ég skil það rétt, kristinn út frá gamla og nýja testamentinu. Þar felur guð þjóð Ísraels eða mannkyninu forræði yfir náttúrunni og náttúruauðlindum en það eru einhverjir fyrirvarar og það verður að fara vel með hana og nýta hana vel. Er það rétt skilið hjá mér? Þar af leiðir að ekki má skemma hana og verður að geyma hana fyrir komandi kynslóðir og slíkt. Náttúruverndin virðist vera tiltölulega sterk inni og það er nákvæmlega það sem er í boði í stjórnarsáttmálanum og starfshópnum sem Miðflokkurinn kemur að um breytingar á stjórnarskrá.

Ég vil spyrja þingmanninn hvort hann sé hlynntur því að slíkt ákvæði verði fest í stjórnarskrá annars vegar og hins vegar því að náttúruauðlindirnar séu á forræði Íslands, m.a. virkjunarréttindi. (Forseti hringir.) Það er líka í boði fyrir lok kjörtímabilsins.