149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[15:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er æðimargt sem ég og hv. þingmaður erum ósammála um í þessu máli, sennilega er ég ósammála öllu sem kom fram í máli hans. En það sem ég staldra aðeins við er þetta: Ítrekað hefur verið staðhæft í þessari umræðu að raforkuverð til heimilanna muni hækka vegna þriðja orkupakkans. Ítrekað hefur líka verið kallað eftir því hvað það sé í þriðja orkupakkanum sem eigi að hækka raforkuverð til heimilanna að mati gagnrýnenda eins og Miðflokksmanna. Hér virðumst við vera búin að festa hendur á því. Það sé jú eftirlitsgjaldið sem á að leggja á. Reyndar er rétt að hafa í huga að því eftirliti er ætlað að auka neytendavernd og stuðla að virkari samkeppnismarkaði á raforkumarkaði, sem ég held að ég og hv. þingmaður getum alveg verið sammála um að hljóti að vera til góðs fyrir neytendur, að samkeppni, sem einmitt er til komin vegna fyrsta og annars orkupakka, sé sem skilvirkust á markaði hér sem annars staðar til að neytendur fái sem hagstæðast verð.

Þegar maður setur þetta í samhengi velti ég fyrir mér að eftirlitsgjaldið sem hér er um að ræða er 0,1% af meðalverði á kílóvattstund. Breytingin á þessu eftirlitsgjaldi er 0,1% af því sem við greiðum fyrir kílóvattstundina, einn tíundi af prósenti. En verðmunurinn á milli hæst- og lægstbjóðanda á markaði í dag til heimila er 10%. Þessu var ekki til að dreifa fyrir örfáum árum þar sem engin samkeppni var til staðar, aðilar seldu meira og minna á sama verði.

Ég spyr því hv. þingmenn: Er ekki meiri ávinningur af því að fá 10% lækkun á raforkuverðinu sínu — og nú ætla ég ekki að vanmeta það að (Forseti hringir.) aukið og hert eftirlit kann að leiða til meiri samkeppni á markaði — en að þurfa mögulega að greiða 0,1% hærra fyrir eftirlitið sem því fylgir?