149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[15:28]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hv. þingmaður spyr hvort ekki sé ávinningur af því að fá 10% lækkun á raforkuverði með því að skipta um orkusala. Ég hefði gjarnan viljað fá að vita hvaða orkusala hv. þingmaður er að tala um sem gæti veitt manni 10% afslátt af orkureikningnum vegna þess að ég hef ekki fundið hann.

Engu að síður verðum við í þessu samhengi að hafa í huga að þegar orkupakki eitt var innleiddur kostaði það að fyrirtækjunum var skipt upp í orkuvinnslu og dreifingu. Það eitt og sér hækkaði raforkureikninginn um 10%. Þá er þessi ávinningur farinn, hv. þingmaður, sem þú nefndir að fengist með því að skipta um orkusala, 10%.

Ég nefndi hér dæmi áðan þar sem einstaklingur óskaði eftir að fá viðskipti við annað orkufyrirtæki og var að reyna að ná niður orkureikningnum og afslátturinn var 38 kr. á mánuði, 452 kr. á ári. Ég hef reynslu af þessu sjálfur. Ég kyndi mitt húsnæði með rafmagni. Ég hef reynt að skipta um orkusala og ávinningurinn er nánast enginn. Vissulega skil ég að þeir þingmenn sem samþykktu þetta í upphafi, á þeim forsendum að þetta væri neytendavernd og hægt væri að skipta um orkusala, hafi kannski stutt málið á þeim forsendum. En það er bara stóðst ekki. Og það sést í dag.

Hv. þingmaður spyr einnig: Hvar eru hækkanirnar sem við sjáum í orkupakka þrjú? Jú, það er eftirlitsgjaldið. Við vitum ekki nákvæmlega hvað það kemur til með að hækka rafmagnsreikninginn hjá almenningi um en það kemur til með að hækka hann. Þetta er 45% hækkun sem er umtalsverð hækkun. Við sjáum það í álitsgerð frá HS Orku að þetta fari beint út í verðlagið.

Síðan er annað varðandi orkupakka þrjú að fyrir einkafyrirtækin sem ætla að fara í orkuframleiðslu verður að sjá til þess að þau komist inn á netið (Forseti hringir.) og það lendir á skattgreiðendum að borga það. Það þýðir væntanlega að það endar á neytendum, ekki rétt?