149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[15:31]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Nú get ég auðvitað ekki lesið í reynslu hv. þingmanns af því að skipta um raforkusala. Ég ætla ekki að standa hér og auglýsa hverjir séu lægstbjóðendur og hverjir hæstbjóðendur á þessum markaði. En það er ágætisvefsíða, aurbjörg.is, sem heldur þeim samanburði úti m.a. og sjálfur skipti ég nýlega um raforkusala og þetta er bara rangt. Þá er alla vega þessi 1.100 kr. lækkun sem varð á mínum rafmagnsreikningi einhver ímyndun í mér. Hún stendur þarna samt á mánaðarlegum reikningi sem ég fæ, 10% lækkun á rafmagnsverði.

Ég er ágætlega sáttur við það og sé ekki betur en að sá raforkusali sem ég skipti við áður hafi líka lækkað verð frá því að fyrir ári þegar þessi samkeppni varð greinilega eitthvað virkari. Þannig að hér virkar samkeppni eins og alls staðar annars staðar.

Ég veit reyndar að flokkur hv. þingmanns er ekkert ýkja hrifinn af samkeppni á mörgum sviðum samfélagsins og kannski vantrúaðri en ég sjálfur á kosti hennar. En það er bara staðreyndin, alls staðar þar sem við berum saman þróun á vöruverði sjáum við að samkeppni virkar og samkeppni þrýstir verði niður. Það er það sem er að gerast á þessum markaði eins og öðrum.

Ég hef enga trú á öðru en að þetta muni einmitt með auknum heimildum til stjórnvaldssekta fyrir möguleg brot á réttindum neytenda í þessu samhengi muni setja aukinn þrýsting á raforkufyrirtækin sem hafa verið í allt of miklum einangrunarmarkaði af kúltúr. Það hefur tekið langan tíma að breyta honum en það hefur greinilega virkað og er verið að auka á samkeppnisþrýsting á þessum markaði með þeim breytingum sem hafa fylgt orkupökkunum. Og ég er sannfærður um að sá þriðji muni hjálpa okkur þar.

Til að halda því til haga: Það er ekkert óljóst hvaða hækkanir er verið að tala hérna um. Þetta er hálfur eyrir (Forseti hringir.) sem eftirlitsgjaldið er að hækka um. Ef það fer að fullu út í verðlagið er það 0,1% að hámarki sem getur orðið á móti þeim mögulegu lækkunum sem verða áfram á raforkuverðinu vegna samkeppniskrafta.