149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[15:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég veit svo sem að hv. þingmaður er ekki til andsvara. En maður veltir fyrir sér: Var slæm reynsla af þessu kerfi áður? Þekkir hv. þingmaður það að þessi fyrirtæki hafi verið að beita einhvers konar viðskiptaaðferðum sem eru slæmar og gera að verkum að herða þarf eftirlitið á þeim? Ég kannast ekki við það.

Við búum við mjög lágt raforkuverð miðað við Evrópu en það hefur vissulega hækkað. Það má m.a. rekja til innleiðingar orkupakka eitt og tvö. Ég sé ekki alveg og hef ekki fengið fregnir af því að þessi fyrirtæki væru að gerast brotleg í þessum efnum. En ég segi: Miðflokkurinn styður að sjálfsögðu alla samkeppni. Við gerum það alveg hiklaust.

Hv. þingmaður talar um að hann hafi náð að lækka sinn raforkureikning um 10%. En hann gleymir því algerlega að þegar orkupakki eitt var innleiddur hækkaði rafmagn mjög snögglega um 10%. Þá ertu búinn að missa af lækkuninni sem þú náðir þarna í. En auk þess hefur rafmagnið ofan á það hækkað á bilinu 7–8% þannig að þú ert enn í mínus, hv. þingmaður. Það er staðreynd og við verðum bara að horfast í augu við það og mér þykir það mjög miður.

En ég held að hv. þingmaður hafi staðið sig betur við að reyna að lækka raforkureikninginn en þetta ákveðna dæmi sem ég nefndi. En það er ekki bara það sem hefur gerst. Allir sérsamningar voru bannaðir með orkupakka eitt og tvö sem þýddi að til húshitunar á ákveðnum svæðum varð veruleg hækkun. Hún var ekki 10%. Hún var upp undir 90%. Sérsamningar til bakarameistara o.s.frv., allt sem skipti (Forseti hringir.) bæði heimilin og fyrirtækin í landinu máli, það eru neikvæð áhrif af orkupakka eitt og tvö.

Þess vegna segjum við í Miðflokknum: Við eigum bara að fá undanþágu frá þessu og ekkert að koma nálægt þessu máli meira vegna þess að þetta er bara, og hefur sýnt sig, ekki að þjóna almenningi og fyrirtækjum í landinu.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)