149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[15:36]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Senn líður að lokum umræðu um hinn svokallaða þriðja orkupakka og ég held að óhætt sé að fullyrða að a.m.k. fáir hafi verið ósnortnir af þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í nokkra mánuði, í yfir 100 klukkutíma í þingsal og víða úti í samfélaginu. Menn hafa þó kannski látið þá umræðu sig varða með mjög mismunandi hætti, ýmiss konar hætti, og sitt sýnist hverjum um öll þau sjónarmið sem hafa verið reifuð í málinu.

Sjálfri hefur mér ekki þótt umræðan sérstaklega djúp efnislega heldur hefur hún miklu frekar verið öðruvísi en aðrar umræður í þessum þingsal og um þingmál almennt. Hún einkennist af verulegum vangaveltum um lögfræðileg álitaefni en minna um efnið sem stendur til að innleiða í löggjöf.

Mér hefur þótt umræðan óvægin á köflum, á alla kanta. Ég ætla ekki að segja á báða bóga því að þótt í grófum dráttum megi segja að menn hafi skipst í tvo flokka, með og á móti orkupakkanum, þá held ég að það sé líka töluverður hluti landsmanna, ég hef greint það af fundum mínum með kjósendum ef maður getur orðað það þannig, með alls konar sjónarmið þótt þau falli ekki beinlínis í annan hvorn flokkinn, með og á móti orkupakkanum. Mér hefur sem sagt þótt umræðan vera óvægin stundum, óþarflega mikil gífuryrði notuð á báða bóga — eða þá alla kanta — sem er alveg örugglega ekki til þess að skýra málið fyrir þeim sem hafa raunverulega áhuga á efnislegu innihaldi þess.

Það sem mér finnst standa upp úr í umræðunni, einkum í sumar þegar menn fengu andrými til að heyra í mönnum úti um allt land eins og þeir ætluðu að gera og ég held að margir hafi gert og fengið aðeins að melta þær umræður sem fóru fram hér í marga klukkutíma, er viðhorf fólks sem skín í gegn, einlægur áhugi manna á að standa vörð um auðlindir þjóðarinnar og einnig einlægur eða fölskvalaus, ef maður getur sagt það, ótti manna við einhvers konar framsal á valdi.

Það er eitthvað sem ég tel að alþingismenn þurfi að hlusta á, hvort sem sá ótti er með réttu eða röngu, hvort sem hann er ástæðulaus í einstökum tilvikum eða ekki.

Þótt þessari umræðu sé skipt upp í tvo daga hefði mátt steypa öllum þeim ræðum sem hafa verið fluttar í dag og þeim ræðum sem fluttar voru í gær undir umræðu um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra saman í eina umræðu, en það er svo sem ágætt að skipta þessu upp. Málin sem eru til umfjöllunar eru efni málsins, tvö frumvörp og ein þingsályktunartillaga.

Ef við tökum t.d. frumvarp hæstv. atvinnuvegaráðherra, orkumálaráðherra, um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun þá er ekkert í því frumvarpi sem slíku sem ekki hefði verið hægt að ræða fyrir mörgum árum eða gera fyrir mörgum árum. Ég sé ekki að þetta sé sérstaklega bein afleiðing af innleiðingu á einhverjum orkupakka.

Ég nefni að efnislega er þetta mál hefðbundið að mínu mati, hefðbundið þingmál er varðar stjórnsýslu á einhverri orkustofnun. Svo geta menn haft skoðanir á því hvort þeir vilji auka sjálfstæði Orkustofnunar, hinnar íslensku, eða ekki til eftirlits eða auka hlutverk hennar til ákvarðana í ýmsum málum eða, eins og hér er nefnt, hvort ákvarðanir Orkustofnunar eigi að sæta kæru til úrskurðarnefndar raforkumála eða ekki.

Ég ætla ekki frekar en aðrir í þessari umræðu síðustu 100 klukkutímana eða svo að fara mjög djúpt yfir efnisatriði málsins. Það sem ég vildi sagt hafa við þetta tilefni er að við skoðun á þessu máli hefur mér ekki sýnst hinn svokallaði orkupakki þrjú, hinn þriðji orkupakki, hafa í raun mikil efnisleg áhrif hér á landi. Ég vísa til þess sem ég sagði, þau frumvörp sem við erum að ræða í dag hefðu allt eins getað verið afgreidd af Alþingi fyrir tveimur árum síðan eða fimm hefðu menn haft áhuga á því að vera búnir að hugsa hvernig þeir vilja hafa þá stjórnsýslu.

Ég hef hins vegar meiri áhyggjur af ýmsum öðrum málum sem koma hingað inn í þingsal til innleiðingar á grundvelli EES-samningsins. Menn hafa rætt orkupakka eitt og orkupakka tvö og jafnvel orkupakka fjögur, sem menn hafa kallað orkupakka fjögur til einföldunar en hann heitir það reyndar ekki. Hann heitir hreinorkupakkinn, það er búið að pakka málinu inn í nýjan titil. En mér finnst af umræðu um þriðja orkupakkann að þingheimur geti mjög vel dregið lærdóm af viðbrögðum sem við greinum úti í samfélaginu. Ég nefndi áðan einlægan áhuga á varðveislu og vernd orkuauðlinda almennt en einnig óttann við framsal á valdi.

Við innleiðingu á orkupakka eitt og tvö, og nú tala ég um þetta í grófum dráttum, voru innleiddar ýmsar reglur sem falla klárlega undir orkukafla EES-samningsins, reglur sem hafa haft mikil áhrif hér, miklu meiri efnisleg áhrif en nokkurn tímann þau frumvörp eða reglur sem settar verða á grundvelli þessara laga eða lagafrumvarpa í framtíðinni. Það voru settar miklu áhrifameiri reglur á þeim grundvelli, reglur sem full ástæða var til á þeim tíma að draga í efa að ættu erindi inn í íslenskt lagasafn.

Ég get tekið dæmi til að skýra hvað ég á við af einu máli sem ég átti aðild að að því leyti að reyna að fá þeirri innleiðingu frestað. Það var lagasetning sem varðaði endurnýjanlega orkugjafa. Lagabreyting sem kvað á um skyldu um að blanda þyrfti í allt eldsneyti hér endurnýjanlegum orkugjöfum. Sú regla var innleidd nokkrum árum, fjórum, fimm, fyrir þann tímafrest sem Evrópusambandið sjálft hafði gefið til þess arna. Það var gert hér þrátt fyrir að Ísland sé nú þegar með hlutfall endurnýjanlegrar orku á Íslandi upp á 80% og allt aðrar aðstæður hér á landi en í Evrópu. Og þrátt fyrir það að markmiðið með reglunum væri ekki fyllilega skýrt.

En afleiðing af þeim lögum sem enn standa, af því að það var ekki fjallað um lagafrumvarp mitt um að fresta innleiðingu á þessu, hefur verið sú, og þá vísa ég til svars fjármálaráðherra við fyrirspurn minni fyrir nokkrum árum um kostnaðinn af því, að beinn kostnaður íslenskra skattgreiðenda af því er 1 milljarður kr., eða hátt í 1,3 milljarðar kr., sem er þá fjárhæð sem rennur beint til erlendra framleiðenda á lífeldsneyti. Þetta er sem sagt kostnaður sem fellur til vegna kaupa á erlendu lífeldsneyti sem flutt er inn til landsins til að blanda í eldsneyti sem hér er fyrir, yfir 1 milljarður á ári.

Það eru mál af þeim toga í farvatninu, m.a. með þessum hreinorkupakka sem verið er að vinna, og ég trúi því að íslensk stjórnvöld undirbúi sig betur fyrir innleiðingu á þeim pakka en menn gerðu fyrir fyrsta og annan orkupakkann. Þriðji orkupakkinn hefur verið í vinnslu í tíu ár en ég hef grun um að fyrsti og annar pakkinn, reglur þar, hafi verið innleiddir með meiri hraða en það. Þetta er það sem ég vil nefna í þessu, að það eru fleiri mál sem mun reka á fjörur Alþingis og kalla eftir innleiðingu á sviði orkumála sem full ástæða er til að staldra við og spyrja grundvallarspurninga um, eins og menn eiga auðvitað alltaf að gera: Hvert er markmiðið með reglunum? Eiga þær reglur við hér? — og þar fram eftir götunum.

Þetta er ekki aðeins á sviði orkumála með vísan til orkukafla EES-samningsins. Stórt mál sem er líka í farvatninu er reglur er lúta að innstæðutryggingarsjóði, breytingar á reglum sem lúta að honum, og aðrar breytingar á reglum um fjármálakerfið. Margar reglur. Við höfum séð að Evrópusambandið ætlar sér að setja reglur sem ég fæ trauðla séð að geti gengið upp hér á landi.

Það skiptir afskaplega miklu máli að menn séu vakandi fyrir því á fyrstu stigum málsins en lendi ekki í því sem þeir eru að lenda í með þriðja orkupakkann, að hafa unnið málið og samþykkt það í sameiginlegu EES-nefndinni og málið vinnist þannig en svo fái menn bakþanka á lokametrunum. Á það legg ég áherslu.

Ég nefndi áðan að ég hef greint ótta við óvissu í málinu. Ég greini það líka í máli margra hv. þingmanna sem hafa talað. Menn benda á það að hér sé einhver óvissa um lyktir málsins, ef til einhvers málareksturs kæmi. Það hafa verið lögð fram lögfræðiálit hægri, vinstri og allt þar á milli og sum lögfræðiálit taka breytingum frá sömu mönnum, menn árétta og ítreka og þar fram eftir götunum. Öll lögfræðiálitin eru því marki brennd, eins og annað kannski í heimi lögfræðinnar, að það er ekkert eitt endanlegt svar. Menn greinir á um lögfræði.

Frá mínum bæjardyrum séð myndi ég aldrei treysta mér til að fullyrða nokkuð um niðurstöðu í neinu dómsmáli, hvað dómsmáli sem er. En það þýðir samt ekki að menn að eigi ekki að taka skrefið og hrinda í framkvæmd því sem þeir hafa sannfæringu fyrir.

Ég ætla ekki að nota hugtakið sem Danir nota, með leyfi forseta, en fæ að varpa því fram hér í ræðustól: „Den tid, den sorg.“ Það er ekki rétta viðhorfið til slíkra mála heldur miklu frekar: Koma tímar, koma ráð.

Við eigum í alþjóðasamstarfi og viljum gera það, ég trúi ekki öðru en að allur þingheimur vilji gera það. Við höfum ákveðið að fela erlendum stofnunum að skera úr um ágreining þegar okkur greinir á við önnur ríki í ákveðnum afmörkuðum tilvikum, skýrt afmörkuðum tilvikum, og það þarf auðvitað að halda því til haga og ekki leyfa þeim erlendu stofnunum að fara að úrskurða eða taka ákvarðanir um eitthvað allt annað en þeim hefur verið falið að gera. En komi til þess að þær geri það og komi til þess að erlendur dómstóll, erlendar stofnanir, erlend stjórnvöld, ætli að taka ákvarðanir sem fara gegn íslenskum hagsmunum, íslenskri stjórnskipan eða íslenskum löggjafarvilja, er víglínan gagnvart slíkri íhlutun dregin hér á landi. Baráttan gegn því eða aðgerðir gegn því verða teknar hér á landi.

Það verður ekkert verra en það að við erum í sömu sporunum og gefum út þau skilaboð að það sé ákveðinn ómöguleiki að efna óskir erlendra embættismanna, eftir atvikum, um einhvers konar íhlutun hér.

Við þurfum líka að vera vakandi fyrir því og átta okkur á því að Evrópusambandið sjálft tekur miklum breytingum þessi dægrin, undanfarin misseri og ár. EES-Samningurinn er auðvitað orðinn rótgróinn hjá okkur frá 1991 þegar við byrjuðum að vinna að honum, lögfestur nokkru síðar. Menn mega ekki fyrtast við því þótt nefnt sé að slíkur samningur þurfi auðvitað alltaf að vera í skoðun með hagsmuni beggja samningsaðila eða allra samningsaðila að leiðarljósi, ekki síst í því ljósi að Evrópusambandið er ekki sama Evrópusambandið og við gerðum samninga við þegar við gerðum EES-samninginn. Upp úr árinu 2000 hófst sú þróun hjá Evrópusambandinu að stofna og setja á laggirnar evrópskar stofnanir sem var falið ákveðið dóms- og úrskurðarvald í ýmsum málum á milli ríkjanna. Það hafði ekki verið áður. Ég nefni sem dæmi Evrópsku matvælastofnunina, Flugöryggisstofnunina, Evrópska fjármálaeftirlitið, persónuverndarráðið sem þingheimur innleiddi á einum degi án umræðu, mál mitt á sínum tíma.

Þá þróun þurfum við að skoða með tilliti til EES-samningsins. Það verður auðvitað ekki um það að ræða að menn ætli að framselja einhvers konar dómsvald um eitthvað allt annað en við sömdum um í EES-samningnum til þessara stofnana. Ég veit ekki til þess að þær hafi óskað eftir því en ég ætla ekki að útiloka að þær — ég ætla ekki segja í brjálæði — ákveði að taka einhverjar ákvarðanir sem þær hafa ekki verið beðnir um að taka, en gerist það er það hér heima sem við tökum á því. Við erum með dómstóla. Við erum með þrjú dómstig, við erum ekki með fleiri dómstig. Það er íslenskra dómstóla endanlega að gæta að fullveldi Íslands. Sú orrusta verður ekki háð erlendis, hún er hér. Og menn verða að axla þá ábyrgð.

Þetta nefni ég og vildi sagt hafa í umræðu um öll þessi mál. Ég vænti þess að þingheimur allur verði jafn áhugasamur um allar þær gerðir sem bíður okkar að innleiða af ýmsum toga, ekki aðeins á þessu málefnasviði heldur á öllum öðrum er lúta að EES-samningnum.