149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[15:56]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, þá yfirvegun og miklu hugsun sem í henni fólst og ég leyfi mér að bæta við: Eins og vænta mátti.

Ég vil nota tækifærið og spyrja — vegna þess að hv. þingmaður hlýtur að teljast, og telst óumdeilanlega, meðal þungavigtarmanna í þingliðinu þegar kemur að lögfræðilegum álitaefnum — hvort hún sé sammála formanni Sjálfstæðisflokksins og varaformanni Sjálfstæðisflokksins um það, svo ég orði það bara þannig, að okkur sé óhætt að beita 102. gr. EES-samningsins.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp tvær setningar úr ræðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra frá því í gær, sem ég bað um að yrðu ritaðar upp, en ráðherra er jafnframt formaður Sjálfstæðisflokksins:

„Sá réttur að beita greininni er óumdeildur. Hann er beinlínis forsenda fyrir því að samstarfið hafi gengið fram til þessa. Hins vegar skiptir máli að menn fari að reglum um þinglega meðferð EES-mála þannig að við lendum ekki ítrekað í þeirri stöðu að þurfa að grípa inn í mál þegar þau eru gengin það langt að 102. gr. sé eina úrræðið, eini kosturinn til að grípa inn í málið. Ég myndi hins vegar alltaf mæla með því að það yrði gert ef þess væri þörf. Ég tel einfaldlega ekki að þörf sé til staðar til að ganga svo langt að þessu sinni.“

Í þessum orðum felst að hann telur, öndvert við það sem utanríkisráðherra lýsti hér við upphaf þessarar umræðu, að sjálfur EES-samningurinn sé undir í málinu (Forseti hringir.) og honum yrði stefnt í uppnám ef þessi þingsályktunartillaga yrði ekki samþykkt.

Hæstv. iðnaðarráðherra lét falla mjög svipuð orð í dag eins og þau (Forseti hringir.) sem ég vitnaði til í máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.