149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og þá eru orðnir þrír mjög miklir áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum sem hafa lýst þeirri skoðun að óhætt sé að fara þá leið, sem er aðaltillaga þeirra lögfræðilegu ráðunauta ríkisstjórnarinnar, að fara með málið aftur fyrir sameiginlegu nefndina á grundvelli 102. gr. Það er auðvitað mjög mikilvægt að fá þetta fram.

Ég kemst ekki hjá því að segja að ég get ekki tekið undir með hv. þingmanni að tala um geðshræringu þegar við erum að tala um málefnalegan málatilbúnað og viðvaranir. Málflutningur okkar er náttúrlega reistur sérstaklega á viðvörunum sem er að finna í lögfræðilegri álitsgerð lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Sá uggur sem greina má meðal þjóðarinnar, örugglega meiri hluta, e.t.v. hjá mjög stórum meiri hluta, verður ekki kenndur við geðshræringu.

Ég hef tvær spurningar til hv. þingmanns. Er hv. þingmaður ósammála prófessor Davíð Þór Björgvinssyni, fimm hæstaréttarlögmönnum og héraðsdómara, um að lagalegi fyrirvarinn sé haldlaus? Hann hafi ekkert þjóðréttarlegt gildi? Og í þriðja lagi: Er hv. þingmaður ósammála ráðunautum ríkisstjórnarinnar, Friðriki Árna Friðrikssyni Hirst og Stefáni Má Stefánssyni, að synji Orkustofnun sæstrengsfyrirtæki um tengingu við landið gæti skapast sú staða að ESA myndi höfða á hendur okkur samningsbrotamál sem þeir telja greinilega ekki miklar vinningslíkur í fyrir okkur? Eins og menn þekkja getur slíkum málum fylgt (Forseti hringir.) skaðabótamál með ærnum tilkostnaði fyrir ríkissjóð.