149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:03]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hafi hv. þingmaður tekið nærri sér að ég hafi notað orðið geðshræring biðst ég að sjálfsögðu afsökunar á því. Mér er bara svo tamt að nota orðið geðshræring af því að mér finnst það svo heillandi, svo heillandi þegar fólk sýnir geðshræringu yfir einhverjum málum, þannig að þetta er svona frekar jákvætt fremur en hitt. En maður á ekki að nota svona orð, gífuryrði, maður er því að reyna að venja sig á að stilla því í hóf.

Hv. þingmaður spyr um lagalega fyrirvara, hvort ég sé sammála. Ef hann er að vísa til þess fyrirvara sem var settur í þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda segir það sig sjálft að næsta þing getur breytt honum. Lög og annað geta tekið breytingum. Það þarf bara meiri hluta á þingi. Ég verð að játa að ég hef ekki alveg áttað mig á þessu fyrirbæri, lagalegur fyrirvari. Mér finnst hreinna og beinna að menn komi með málin og séu ekki að flækja þau með einhverju slíku. En ég ætla ekki að fullyrða um það og get ekki gefið lögfræðilegt álit eða minnisblað um hvort eitthvað haldi eða haldi ekki, enda held ég, eins og ég hef margoft nefnt hérna í ræðu minni og andsvörum, að lögfræðin sé ólíkindatól og hvað heldur og hvað ekki veit ég ekki. Þar veldur hver á heldur.

Sama svar get ég veitt hv. þingmanni varðandi seinni fyrirspurnina, um það hvort einhvern tímann komi til þess að ESA kveði upp þann úrskurð að hér verði skylda að leggja sæstreng. Mér finnst það auðvitað langsótt. Ég tel að það sé útilokað, með þeim fyrirvara sem ég hef sagt hér áður, að komast að þeirri niðurstöðu að ríkið þurfi að gera það. En hvort það gæti komið til þess að einhver einstaklingur eða fyrirtæki kvarti til ESA og segi að honum sé hamlað að hann fái að reka sinn rekstur, ég meina, það gæti allt eins verið. (Forseti hringir.) Menn komast að undarlegustu niðurstöðum fyrir dómi.