149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu. Það er margt í hennar ræðu sem maður getur tekið undir og lýst sig sammála, ekki síst þegar kemur að orðum hennar um innleiðingarfrumvörpin öllsömul og hvernig þetta ferli allt saman virkar. Eflaust má breyta því og bæta og það er spurning hvort við getum fundið út úr því hvort gera megi það skilvirkara með einhverjum hætti.

Hv. þingmaður sagði í sinni ræðu — notaði fyrst danskt máltæki, en sagði svo: Koma tímar, koma ráð. Það sem maður óttast í þessu máli er að við getum jú breytt lögum, við getum gert það, en við tökum ekki til baka þessa ákvörðun um að aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum og taka upp þriðja orkupakkann. Og áhyggjurnar lúta kannski fyrst og fremst að því að við höfum séð í trýnið á fjórða orkupakkanum, ég vil orða það þannig, sem er framhaldsinnleiðing. Það er verið að þróa áfram þær reglur sem nú er verið að innleiða. Og jú, við byrjuðum á þessu með fyrstu og annarri orkutilskipuninni og höldum svo áfram núna.

Það er ekki hægt að beita sér þannig að hægt sé að segja: Koma tímar, koma ráð. Við getum ekki síðar tekið á þeim álitaefnum sem nú eru uppi varðandi skyldur okkar eða ekki skyldur er varða stjórnskipuleg álitaefni, þegar við erum búin að innleiða þriðja orkupakkann, varðandi þann fjórða, svo að dæmi sé tekið. Menn tala mikið um sæstreng. Maður hugsar: Væri á einhvern hátt hægt að dæma okkur af EFTA-dómstólnum til að heimila sæstreng?

Menn hafa tekist á um hafréttarmál, landgrunn og annað. Ég sá á netinu að Norðmenn hafa verið dæmdir af ESA, rafstrengir frá landi út í olíuborpallana falla undir þennan samning. (Forseti hringir.) Það eru svo margir hlutir sem eru enn í óvissu. (Forseti hringir.) Þess vegna finnst mér við ekki geta sagt: Koma tímar, koma ráð. Ekki varðandi þetta. En auðvitað er það rétt hjá þingmanninum að við getum alltaf breytt lögum.