149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:07]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég átti við með því að vísa til þess sem mögulega skal koma er það að við getum ekki séð framtíðina fyrir, hvað gerist í framtíðinni. Við getum búið okkur undir alls konar sviðsmyndir. Við getum haft okkar innviði þannig að þeir geti brugðist við. Hv. þingmaður nefnir alls kyns sviðsmyndir hér. Ég tel að við séum ekkert frekar í stakk búin til þess að taka ákvarðanir um það í dag, um þá þætti sem hann nefndi í sinni ræðu. Ég tek sem dæmi sæstrenginn sem hefur svolítið verið til umræðu hér í tengslum við þriðja orkupakkann þó að hann lúti ekkert að því. Ég heyrði ekki betur en að formaður flokks hv. þingmanns hafi lýst því yfir að hann vildi ekki sæstreng, hann vildi slá hann út af borðinu, helst bara með stjórnarskrárbreytingu — hann sagði það nú ekki, en vildi slá það mjög ákveðið út af borðinu að sæstrengur yrði ekki lagður hingað. Mér finnst það alveg útilokað og ákaflega ómálefnalegt að slá einhverju slíku föstu, máli sem hefur bara ekkert verið rætt.

Ég hef ekki efnislegar eða tæknilegar forsendur til að taka ákvörðun um hvort hingað eigi að koma sæstrengur eða ekki. Eina sem ég get sagt: Þjóni það hagsmunum þjóðarinnar að leggja sæstreng einhvern tíma væri fráleitt að vera búin að negla það niður að það verði ekki gert. En við erum alltaf í þeirri stöðu að bregðast við óvæntum viðburðum og atvikum í framtíðinni. Það er það sem ég á við: Þá koma ráð.