149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:12]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins að hinu fyrra sem hv. þingmaður nefndi, til að ljúka því með framtíðina sem við sjáum ekki. Hann lýsir því að við sjáum aðeins inn í framtíðina og fullyrðir að Evrópusambandið vilji gera þetta að einum markaði. Það er svo sem alveg rétt, þeir eru að líta til eins markaðar. En ég hef hvergi fundið því stað að menn heimti að búin verði til einhvers konar ný orka t.d. eða leggi nýja innviði til að dæla inn í kerfið og þar fram eftir götunum.

Eina sem hægt er að segja við svona er það sama og ég hef sagt áður með öðrum orðum: Ef menn ætla að koma hingað og skikka okkur eða taka frá okkur orkuna með einhverjum hætti þá er það auðvitað, ég veit ekki, eins konar stríðsyfirlýsing. Við þurfum þá að verjast því hér á landi. Við gerum það þá hér. Ég held að það geti ekki gerst að einhverjir menn komi frá Evrópu og ætli bara að stinga í samband einhverjum sæstreng og soga út orkuna — þetta er svona myndlíking, svolítið ýkt, mér finnst umræðan hafa verið þannig. Við sitjum ekki aðgerðalaus hjá ef slíkt gerist. Auðvitað ekki. Slíkt verður ekkert gert nema með okkar samþykki. Það er þess vegna sem ég er alltaf að leggja áherslu á þetta: Fullveldið er hér, það verður ekki af okkur tekið, hvorki með EES-samningnum né öðrum alþjóðlegum samningum. Fullveldið er hér. En það er líka hér sem við þurfum að standa vörð um það, hjá íslenskum dómstólum t.d. Það er þeirra hlutverk að gera það og löggjafans líka.

En varðandi þetta norska mál þá er það rétt, sem fram kemur hjá hv. þingmanni, að ég þekki það ekki neitt. En þetta er auðvitað eitthvað sem þyrfti að skoða. Ef það þjónar ekki þeirra hagsmunum — og nú veit maður ekki af hverju Norðmenn hafa kvartað yfir því — að hafa þessar reglur með þessum hætti þá er það eitthvað sem þeir ættu að taka (Forseti hringir.) upp. Mögulega geta þeir gert það, ég bara þekki það ekki. (Forseti hringir.) En við skulum ekki líta fram hjá því að við höfum tækifæri í (Forseti hringir.) EES-samningnum til þess einmitt að fá undanþágur og sérstakrar aðlaganir. Við höfum (Forseti hringir.) bara ekki verið að nota það nógu mikið.