149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla að blanda mér inn í þessa umræðu um innleiðingu þriðja orkupakkans og þau þrjú mál sem eru hér undir í dag í umræðu. Ég get alveg viðurkennt að ég hafði miklar efasemdir um innleiðingu þriðja orkupakkans, sérstaklega á þeim forsendum að mikill þrýstingur skapaðist á að lagður yrði sæstrengur í kjölfarið með tilheyrandi þrýstingi á virkjanaframkvæmdir á kostnað náttúrunnar og hækkun raforkuverðs til almennings. Ég hef reynt að kynna mér málið eftir bestu getu og samvisku og eins og um málið er búið í dag í meðförum Alþingis, bæði í utanríkismálanefnd og atvinnuveganefnd þá tel ég að það sé hvorki verið að framselja yfirráð yfir orkuauðlindum okkar né sjálfsákvörðunarrétt okkar gagnvart lagningu sæstrengs. En ég get upp að vissu marki skilið þær áhyggjur sem komið hafa fram í þessari umræðu hjá þeim sem óttast innleiðingu þriðja orkupakkans. Það er ekki síst út af þeim mikla áróðri sem verið hefur gegn innleiðingu hans og ekki alltaf á málefnalegum nótum að mér finnst.

Sem dæmi má taka mál sem andstæðingar orkupakkans hafa nefnt þó nokkrum sinnum, þ.e. að Evrópusambandið hafi stefnt Belgíu fyrir ófullnægjandi innleiðingu á ESB-gerð sem er hluti af þriðja orkupakkanum. Einhverjir virðast halda að allar líkur séu á að slíkt mál geti komið upp hér. En í því máli er það mat framkvæmdastjórnar ESB að Belgía hafi ekki innleitt ákvæði varðandi valdheimildir belgíska raforkueftirlitsins með réttum hætti og sérstaklega þar sem belgískir eftirlitsaðilar hafi ekki sjálfstæði til að taka bindandi ákvarðanir gagnvart fyrirtækjum á orkumarkaði heldur einungis tillögurétt til stjórnvalda í Belgíu. Við skulum líka hafa það í huga að Belgía er í Evrópusambandinu en ekki Ísland.

Hér ræðum við einmitt um það að efla raforkueftirlit Orkustofnunar með því að skýra hlutverk og auka sjálfstæði þeirrar stofnunar. Við í atvinnuveganefnd fengum kynningu á skýrslu Orkunnar okkar nú á dögunum. Í máli þeirra kom m.a. fram að hinn svokallaði landsreglari, sem í okkar tilfelli er Orkustofnun, muni með innleiðingu þessa orkupakka fá tvö meginverkefni með innleiðingunni. Annað þeirra væri að fjarlægja allar hindranir í vegi sæstrengstengingar við útlönd. Þarna er að sjálfsögðu verið að fara hreint og beint rangt með. Ég get vel skilið að mikill hiti sé í mönnum þegar rætt er um auðlindir landsins og eins og ég sagði hafði ég sjálf efasemdir í upphafi um þetta mál. En menn mega ekki missa sig í þessari umræðu og skapa ótta almennings í landinu um að verið sé að framselja yfirráð okkar sem sjálfstæðrar þjóðar yfir orkuauðlindum landsins, því það er svo langt í frá.

Hér ræðum við m.a. tillögu þess efnis að Alþingi muni alltaf hafa lokaorðið þegar kemur að því að veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs. Það hlýtur að skipta máli. Við getum hvorki stjórnað framtíðinni né breytt fortíðinni. Við ráðum ekki hverjir tóku ákvarðanir á undan okkur og við ráðum ekki heldur hverjir taka sæti á Alþingi í framtíðinni, en við sem hér sitjum hljótum að vilja treysta þeim sem munu eiga eftir að taka sæti á Alþingi, hvort sem það erum við eða aðrir, til þess að taka rétta ákvörðun, lýðræðislega ákvörðun, ef til þess kemur að einhver vilji leggja sæstreng í ókominni framtíð.

Það eru engin dæmi til um að tekin hafi verið ákvörðun um lagningu sæstrengs þvert á vilja stjórnvalda. Það hefur ekki verið sýnt fram á það í umræðunni hér. Það var ákveðið á sameiginlegum þingflokksfundi ríkisstjórnarflokkanna þann 20. mars sl. að draga til baka umsókn um sæstrengsverkefnið IceLink, á svokölluðum PCI-lista ESB. Ég tel það eitt og sér skipta líka miklu máli. Landsnet hefur nú þegar sent inn tilkynningu um að umsóknin sé dregin til baka.

Það skiptir miklu máli að sinna öflugri hagsmunagæslu í Brussel. Það þýðir ekki að gera eins og íslensk stjórnvöld gerðu árið 2007, lofa að taka upp matvælastefnu Evrópusambandsins og vakna svo upp við vondan draum áratug síðar og komast að því að það hafi verið gert vitlaust og ólöglega. Þetta er þessi ríkisstjórn að laga með því að leggja mikla áherslu á að hagsmunagæslan sé á fyrstu stigum mála og fylgjast enn betur með en gert var hér á árunum áður. Það er lykilatriði í því að EES-samningurinn haldi áfram að vera til gagns fyrir okkur á Íslandi á komandi árum líkt og hingað til að við stöndum vörð um þá hagsmuni sem felast í honum. Þessi samningur má ekki vera á sjálfstýringu því þá munu koma upp mál sem ekki henta íslenskum aðstæðum.

Virðulegi forseti. Auðlindir okkar Íslendinga eru gríðarlega verðmætar, bæði til sjós og lands, og okkar græna orka vekur athygli og er vissulega eftirsóknarverð og horft er til þess frá öðrum löndum. Það er mikilvægt að eiga samtal um það hvernig er best að vernda auðlindirnar og færast í átt að grænni orkunotkun. Það er hins vegar samtal sem á heima á öðrum vettvangi en í umræðu um þessi mál hér.

Þriðji orkupakkinn snýr gagnvart okkur m.a. að neytendavernd. Það er ekkert leyndarmál að ég og mínir félagar í Vinstri grænum vorum á móti markaðsvæðingu raforkunnar sem fólst í fyrsta og öðrum orkupakkanum, en í dag erum við ekki stödd á þeim tímamótum. Það er búið og gert og fyrst þeir orkupakkar hafa verið innleiddir er mikilvægt að tryggja rétt neytenda til aðgangs að dreifikerfi rafmagns, tryggja gagnsæi á markaði og sjálfstæði eftirlitsaðila. Við erum hér að fjalla um aukið raforkueftirlit Orkustofnunar og sjálfstæði þeirrar stofnunar neytendum til góða.

Hin tvö málin sem hér eru til umfjöllunar snúast um að ekki verði ráðist í lagningu sæstrengs nema að undangenginni umræðu og samþykkt Alþingis um breytingar á stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Annað málið er tillaga um breytingu á raforkulögum þar sem kemur nýtt ákvæði um að um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands með sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Ég tel að við séum hér að geirnegla það að enginn sæstrengur verði lagður til Íslands gegn vilja stjórnvalda og án undangenginnar mikillar umræðu á vettvangi stjórnmálanna og hjá almenningi í landinu.

Fjöldi sérfræðinga hefur komið að þessu máli á þeim mánuðum sem það hefur verið til umfjöllunar á Alþingi og eins og hefur komið fram hefur það verið á vettvangi stjórnmálanna í um tíu ár. En við sem sitjum á Alþingi erum ekki hvert og eitt okkar löglærð og til þess að leiðbeina okkur höfum við okkar færustu sérfræðinga í ýmsum málum, stjórnskipunar-, hafréttar- og þjóðaréttarmálum svo eitthvað sé nefnt. Virtir sérfræðingar hafa lagt fram álit á hinum ýmsu álitaefnum og breytingar hafa orðið til þess að styrkja þetta mál gagnvart forræði Íslendinga á ákvörðun um hugsanlega lagningu sæstrengs einhvern tímann í framtíðinni. Ég tek mark á þeim sérfræðingum. Í áliti sem var lagt fyrir utanríkismálanefnd og liggur fyrir er fullyrt að enginn lögfræðilegur vafi sé á því að sú leið sem lögð er til og þingsályktunartillaga utanríkisráðherra grundvallast á sé í samræmi við stjórnarskrá. Mér finnst það auðvitað skipta öllu máli, því ekki förum við að ganga gegn stjórnarskrá landsins með þessari innleiðingu.

Síðan hafa komið upp ýmis álitamál sem við höfum fengið okkar færustu sérfræðinga til þess að vega og meta eftir bestu getu. En eins og kom fram hjá fyrri ræðumanni, hv. þm. Sigríði Andersen, þá getur enginn sagt fyrir fram með fullri vissu að hvaða niðurstöðu dómstólar komast í hverju og einu máli. Það hlýtur að segja sig sjálft. En menn verða auðvitað að reyna að nálgast það hvort meiri eða minni líkur séu á einhverju í þeim efnum og það er gert með því að leita til okkar færustu sérfræðinga.

Með leyfi forseta vitna ég í það sem kemur fram hjá Hilmari Gunnlaugssyni lögmanni sem skrifaði lokaritgerð í meistaranámi á sviði orkuréttar um ACER og áhrif þriðja orkupakkans. Hann segir að með innleiðingu þriðja orkupakkans sé hvorki verið að taka ákvörðun um að leggja sæstreng né framselja vald til ACER. Raunar verði erfiðara að leggja sæstreng eftir innleiðingu þriðja orkupakkans en fyrir hann, segir hann og vísar til fyrirvara sem settir eru líka um málið sem við erum að fjalla m.a. um í dag.

Með leyfi forseta vil ég vísa í fleiri sérfræðinga sem Alþingi hefur leitað til. Bjarni Már Magnússon, prófessor við Háskólann í Reykjavík og sérfræðingur í hafrétti, segir rangt að íslensk stjórnvöld missi ákvörðunarvald um sæstreng, t.d. kæmu hafréttarsamningar í veg fyrir slík skaðabótamál og íslensk stjórnvöld væru í fullum rétti til að koma í veg fyrir sæstreng.

Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar, segir langsótt að lesa úr þriðja orkupakkanum skuldbindingu um sæstreng og telur að ekki sé tekin áhætta með fyrirhugaðri innleiðingu.

Skúli Magnússon héraðsdómari, sem oft hefur verið nefndur í þessum ræðustól undanfarið, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og fyrrverandi skrifstofustjóri EFTA-dómstólsins, hafnar rökum um að lagning sæstrengs tengist þriðja orkupakkanum.

Margrét Einarsdóttir, dósent í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, segir fjarstæðukennt að lesa lagalega skuldbindingu um sæstreng í almennum aðfaraorðum þriðja orkupakkans.

Stefán Már Stefánsson, sem einnig hefur verið nefndur ansi oft í þessum ræðustól, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Friðrik Árni Friðriksson lögfræðingur hafa sagt að fyrirvarar Íslands við innleiðingu þriðja orkupakkans yrðu að vera mjög skýrir ef þeir ættu að halda. En þeir segja í bréfi til utanríkismálanefndar að þegar öll þingmálin, greinargerðir og önnur gögn séu lesin saman sé fyrirvörum réttilega haldið til haga. Það mun enginn geta í ókominni framtíð bannað einhverjum að láta reyna á það fyrir dómstólum, hvort sem það er ESA eða aðrir alþjóðlegir dómstólar sem menn kjósa að skjóta hugsanlega einhverju máli til sem tengist þriðja orkupakkanum og því að við tengjumst sameiginlegum raforkumarkaði Evrópu. Það er bara réttur allra, sem betur fer, að láta reyna á mál fyrir dómstólum.

Ég vitna aftur til Skúla Magnússonar, dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, þar sem hann ræðir um mögulegt skaðabótamál vegna sæstrengs og segir að það sé ekkert í efnisgreinum málsins sem hægt sé að byggja málsókn á og að við séum ekki skuldbundin til að leggja sæstreng og að mögulegt skaðabótamál vegna sæstrengs líkist lögfræðilegri vísindaskáldsögu.

En það er eins og það er, menn líta silfrið misjöfnum augum og það er með ólíkindum hvernig menn geta talað hérna í kross með allar þessar upplýsingar fyrir framan sig. En stundum þegar það þjónar málstaðnum þá berja menn hausnum við steininn og vilja ekki trúa því sem stendur svart á hvítu eða leggja allt út á versta veg og segja að hugsanlega fari þetta svona eða hinsegin. En við erum til þess kosin á Alþingi að taka ákvarðanir eftir bestu samvisku eftir að hafa leitað allra upplýsinga sem við teljum að þurfi til að taka upplýsta ákvörðun. Og miðað við það að við erum búin að vera með þetta mál þetta lengi, fyrst hjá stjórnsýslunni og síðan inni á Alþingi, þetta er ferill upp á tíu ár, þá hefði átt að vera búið að höggva á hnútinn, þó fyrr hefði verið, t.d. í vor og leyfa þingsal að greiða atkvæði um þessi mál. En við gerðum málamiðlun eins og við þurfum oft að gera og komumst að þeirri niðurstöðu að við ætluðum að taka þessa ákvörðun í lok ágúst sem við erum að gera nú. Mér finnst heilt yfir að þessi umræða hafa verið ágætlega málefnaleg. Hver og einn heldur sínum sjónarmiðum til haga og síðan berum við sem stofnun ábyrgð á þeirri ákvörðun sem hér verður tekin.

Ég segi að lokum að ég hræðist ekki þriðja orkupakkann eins og hann lítur út. En ég viðurkenni alveg að þegar innleiðing á fyrsta og öðrum orkupakkanum var á sínum tíma og verið var að aðskilja framleiðslu og dreifingu, þá óttaðist ég afleiðingar þess. Það voru auðvitað aðrir sem sátu þá á þingi en niðurstaða þess tíma var sú að innleiða þessar orkutilskipanir. Við getum ekki snúið tímanum við. En við eigum að vera vakandi og á varðbergi. Ég tel að EES-samningurinn sé okkur sem þjóð mikilvægur á marga lund. Þegar hann var gerður á sínum tíma þá var hann gerður undir þeim formerkjum að það voru sjö lönd sem stóðu að EES-samningnum á móti 12 ríkjum í Evrópusambandinu svo að vægi þeirra þjóða sem þá voru innan EES til þess að gera hagstæða samninga var mjög mikið. Nú hafa tímarnir breyst. Það hafa miklu fleiri ríki bæst við Evrópusambandið og nú erum við orðin þrjú ríki með EES-samninginn, svo að ég held að við þurfum að halda fast í það sem við náðum þegar valdajafnvægið milli þeirra aðila sem gerðu þennan samning var sjö ríki á móti 12 ríkjum Evrópusambandsins.

Við eigum að vera á varðbergi og nota okkar færustu sérfræðinga í að skoða með stjórnvöldum hverju sinni tímanlega þær innleiðingar á tilskipunum sem falla undir EES-samninginn. Ég treysti stjórnvöldum til að vera þar á verði og okkur sjálfum.