149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Mig langar að spyrja þingmanninn út í tvennt. Í fyrsta lagi nefndi þingmaðurinn þetta Belgíumál svokallaða sem hefur verið nefnt nokkrum sinnum og snýst í rauninni um það að Belgía innleiddi ekki með réttum hætti tilskipun frá Evrópusambandinu, þ.e. hvað varðar þennan orkupakka þrjú, og gerði það þannig að þeir ákváðu að halda ákveðnum hlutum fyrir sig eða ráða þeim sjálfir, þ.e. stjórnvöld, og framvísuðu ekki til orkustofnunar.

Meiri hlutinn hér virðist ætla að innleiða þriðja orkupakkann og þau lög sem fylgja honum með ákveðnum fyrirvara. Þá spyrja ég hv. þingmann: Þessi fyrirvari sem þarna er notaður til innleiðingar, hvar er hægt að finna hann í heimildum í því ferli sem er notað við innleiðingar? Hvar má innleiða með fyrirvara? Er þetta ekki jafn óheimilt og að innleiða ekki allan pakkann? Ég veit ekki til þess að heimilt sé að innleiða reglugerðir með fyrirvara og þær teljast þá ekki innleiddar með réttum hætti. Hver er munurinn þarna á?

Í öðru lagi. Hv. þingmaður nefndi hafréttarsáttmálann og slíkt. Kannast þingmaðurinn við það að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins neitaði á sínum tíma — ég sagði reyndar ESA hér í fyrri ræðu, en það var framkvæmdastjórn Evrópusambandsins — Noregi um undanþágu frá þriðja orkupakkanum fyrir sæstrengi, fyrir kapla sem liggja frá landi út í olíuborpallana? Á hvaða forsendum? Jú, vegna þess að þeir liggja um sérefnahagslögsöguna og í landgrunninu. Þar af leiðandi spyr maður: Á þá ekki það sama við um Ísland?