149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég velti fyrir mér, eða velti ekki fyrir mér, ég verð að segja að ég var í rauninni ekki að spyrja um hvort fyrirvarinn dugi fyrir dómstólum, nema að þetta sé svar þingmannsins við þeirri spurningu.

Ég spurði: Er þetta rétt innleiðing? Nú er sótt á Belga fyrir ranga innleiðingu vegna þess að þeir innleiddu þetta ekki með réttum hætti. Ég hef aldrei heyrt talað um það fyrr að mál sé innleitt með einhliða fyrirvara, alveg sama hvernig fyrirvarinn lítur út. Þess vegna velti ég því upp hvort það geti verið að líkur séu þarna á milli, að við séum að innleiða með röngum hætti. Við erum ekki að innleiða alla tilskipunina. Við ætlum að halda eftir ákveðnum hluta, þ.e. þegar kemur að þessum sæstrengjum sem hv. þingmaður nefndi. Þess vegna spyr ég aftur hvort að líkindin með þessum málum séu ekki einmitt þau að við erum að skilja eftir ákveðinn hluta, gera fyrirvara um ákveðinn hlut, en ætlum ekki að innleiða, þar af leiðandi innleiðum við ekki með réttum hætti.

Varðandi Noreg, það er allt rétt sem hv. þingmaður sagði. Noregur er vitanlega tengdur með fullt af köplum og slíkt. En niðurstaða framkvæmdastjórnarinnar er sú að tilskipunin, orkupakki þrjú eða allt sem því fylgir, gildir um þessa sæstrengi. Það kemur ekkert málinu við hvort Noregur er tengdur í suðurátt eða hvernig það er. Bara tilskipunin, sem við erum að innleiða hér, gildir um þessa strengi út í borpallana. Þeir eru að vísa til þess að tilskipunin gildi um starfsemi í sérefnahagslögsögunni og landgrunni aðildarríkjanna. Þetta kemur fram í minnisblaði frá atvinnuvegaráðuneytinu sem var fyrir utanríkismálanefnd.