149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið ágætisumræður hér í dag, ég held að langflestu ef ekki öllu leyti. Við hv. þingmaður sem talaði síðast áttum ágætissamtal í andsvörum og þakka ég henni fyrir það, það var vel gert hvernig því var svarað. Okkur greinir hins vegar eðlilega á um ákveðna hluti, um hvort við eigum að hlusta á þessa lögmenn eða hina lögmennina. Það er mikil óvissa uppi um ýmsa hluti lögfræðilega í málinu. Þá veltir maður fyrir sér hvort við eigum að taka sénsinn á því að samþykkja það eða bíða og hafa vafann áhættuminna megin, ef má orða það þannig. Það finnst mér alla vega en sjálfsagt deila menn um það.

Það hefur skýrst frekar í dag að þeir sem eru fylgjandi málinu, stjórnarþingmenn fyrst og fremst, réttlæta það að ganga þessa leið fyrir sjálfum sér töluvert mikið með fyrirvörunum sem hafa verið settir inn. Jafnframt hefur komið fram að það er ljóst að forystumenn í það minnsta Sjálfstæðisflokksins telji einsýnt að ekkert sé því til fyrirstöðu í sjálfu sér að beita 102. gr. EES-samningsins, nema þeir telja ekki tilefni til þess núna. Það er skoðun þeirra og við verðum að sjálfsögðu að virða hana þótt við getum verið ósammála henni.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að koma inn á og í rauninni ítreka. Umræðunni fer senn að ljúka eins og við öll vitum. Í fyrsta lagi tel ég að enn hafi ekki verið færð sannfærandi rök fyrir því að þeir fyrirvarar sem settir eru inn komi til með að halda lendi Ísland í samningsbrotamáli eða einhvers konar máli þegar kemur að þessum samningi. Á það hafa fjölmargir aðilar bent. Ég er enginn sérfræðingur í því en sé hins vegar að menn eru smeykir við það.

Ég hef líka spurt og velti því upp, af því að menn hafa vitnað í hafrétt, að framkvæmdanefnd Evrópusambandsins telji að tilskipunin gildi á landgrunni og í sérefnahagslögsögu ríkjanna samkvæmt neitun sem Noregur fékk á undanþágubeiðni. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki sérstaklega vel að mér í hafrétti, hvort þetta skiptir máli inn í þá röksemdafærslu, inn í þá umræðu nú.

Það hefur vitanlega líka verið talað um að íslenskir dómstólar komi okkur til varnar lendum við í einhverjum vandræðum. Við héldum að við værum vel sett í svokölluðu kjötmáli. Það fór á annan veg. Auðvitað fögnuðu því ýmsir í þessum sal. Menn hafa komið í púltið, sér í lagi fulltrúar Viðreisnar, og kallað Miðflokksmenn popúlista og ég veit ekki hvað, kallað þá þjóðernisnöfnum. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég lít á það sem hól frá Viðreisn að vera talinn hugsa um þjóðina, hugsa um landið, íslenskuna, jafnvel fánann. Það eru góð tíðindi þegar Viðreisnarfólk talar þannig um Miðflokksmenn. Ég vil frekar vera þar heldur en talsmaður auðvalds, kaupmanna og þeirra sem vilja selja landið í hendur alþjóðlegum stofnunum með alþjóðlegum ríkjabandalögum. Þar vildi ég ekki vera, ekki á því skipi, svo það sé sagt.

Einnig hefur verið rætt töluvert um belgíska málið. Fyrir mér snýst það ekki um efnisinnihald málsins heldur fyrst og fremst það að Belgar eru sakaðir um að hafa innleitt með röngum hætti þá tilskipun. Ég velti fyrir mér hvort við séum að gera slíkt hið sama með þeim fyrirvara sem þarna er settur inn, hvort talið verði að við séum að innleiða það á rangan hátt. Við því hafa ekki fengist nein svör af eða á fram til þessa.

Síðan langar mig aðeins að koma aftur inn á orkupakka fjögur. Sá pakki er kominn fram og var kynntur 25. júlí sl., ef ég man rétt, og var þá að sjálfsögðu búinn að vera töluvert lengi í vinnslu. Það er rétt sem hefur komið fram að eflaust tekur nokkur ár fyrir hann að koma inn í íslenska kerfið allt saman en það breytir því ekki að ákveðnir aðilar hér á landi, hagsmunaaðilar, ríkisbatterí, stofnanir, eru farnir að skoða þennan pakka. Ég kalla hann fjórða orkupakkann. Hann hefur verið kallaður vetrarpakkinn, sá ég einhvers staðar, og einnig grænorkupakkinn, eitthvað slíkt, mjög fallegt nafn að sjálfsögðu.

En fjórði orkupakki er bara framhald á hinum þremur, fyrsta, öðrum og þriðja, beint framhald, vegna þess að þetta er allt saman ein samfella. Það sem er verið að innleiða er orkustefna Evrópusambandsins, það er það sem er undir. Það er ekki verið að innleiða einhvern bút sem passar ekki við púslið í númer þrjú eða slíkt. Þetta er allt ein samfella sem verið er að þróa og breyta smám saman. Það kann vel að vera að þessar orkutilskipanirnar eða pakkar eigi eftir að verða fleiri en fjórir, fimm eða sex, eða guð má vita hvað. Það fer allt eftir því hvernig Evrópusambandið ætlar að ná þeim markmiðum sínum sem koma ágætlega fram í stefnuskjölum þeirra.

Það kemur fram í fjórða orkupakkanum, í 3. gr. reglugerðar nr. 944/2019, þar sem fjallað er um aðildarríkin að þau skuli sjá til þess að landslög þeirra hamli ekki að óþörfu viðskiptum með raforku yfir landamæri eða dreifingu rafmagnsframleiðslu og nýrra tenginga milli aðildarríkjanna og skuli tryggja að raforkuverð endurspegli raunverulega eftirspurn og framboð. Þá veltir maður fyrir sér hvað það þýði að hamla að óþörfu. Í það minnsta er Evrópusambandið búið að sýna okkur svart á hvítu að þetta er ein samfella, einn markaður sem þetta bandalag ætla sér að búa til og ná fram.

Virðulegi forseti. Ég gæti að sjálfsögðu talað mikið um þetta. Ég hef áhyggjur af þeim spurningum sem er enn ósvarað. Ég sakna þess svolítið að stjórnarflokkarnir og samfylkingarflokkarnir allir skuli ekki hafa sagt okkur enn þá hvers vegna við eigum að innleiða þennan orkupakka. Það hefur ekki enn þá verið sagt, alla vega ekki skýrt. Það er þvæla að EES-samningurinn sé í hættu verði þessu slegið á frest. Það er klárlega heimild í því. Evrópusambandið hefur aldrei beitt Ísland neinum hótunum svo ég viti til, ekki einu sinni þegar viðræðum var slitið. Menn urðu auðvitað sármóðgaðir, sérstaklega yfir því hvernig var stofnað til viðræðnanna, en það var aldrei nein hótun uppi á borðinu. Hún verður það ekki heldur núna því að ef Evrópusambandið vill taka láta taka sig alvarlega virðir það þá samninga sem það gerir.

Virðulegi forseti. Auðvitað er það þannig að á endanum verða greidd atkvæði um þetta mál og þá berum við ábyrgð á því hvernig við greiðum atkvæði. Ég er enn þá þeirrar skoðunar, og í rauninni miklu meira þeirrar skoðunar akkúrat núna heldur en ég var kannski fyrir nokkrum vikum eða mánuðum síðan, að við eigum að fresta þessu. Við eigum að sjá hvað er fram undan í orkupakka fjögur og meta heildaráhrifin fyrst við getum það. Við höfum þann kost að meta heildaráhrifin og það er það sem við eigum að gera.