149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:52]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mér finnst alltaf áhugaverð sú gagnrýni Miðflokksmanna að þegar við í Viðreisn tölum máli neytenda séum við að tala máli kaupmanna. Þegar við tölum máli samkeppni séum við einhvern veginn að tala máli sérhagsmuna en ekki hinna augljósu hagsmuna alls almennings, en við skulum ekki fara út í þá sálma hér.

Þegar soðin er niður öll sú froða sem hefur verið í þessari umræðu standa eftir vangaveltur um mögulegt samningsbrotamál gegn Íslandi. Nú hefur heilmikið verið skrifað um það og mér sýnist flestir okkar þjóðaréttarsérfræðingar sammála því að hafréttarsáttmálinn taki fram yfir EES-samningnum hvað þetta varðar. Bent hefur verið á skýr dómafordæmi fyrir Evrópudómstólnum hvað það varðar þar sem er tekið skýrt fram í úrskurðum Evrópudómstóls að hafréttarsáttmálinn gangi Evrópureglum framar og þar af leiðandi augljóst að við höfum alltaf fullt forræði yfir landgrunni okkar þegar kemur að sæstrengsmálum.

Ég spyr því hv. þingmann kannski fyrir það fyrsta: Þekkir hann einhver dómafordæmi um hið gagnstæða, því að bent hefur verið dómafordæmin þessari túlkun til stuðnings? Í öðru lagi, og kannski öllu mikilvægara, þá er sæstrengsframkvæmd gríðarlega mikil framkvæmd sem felur ekki aðeins í sér áform um að leggja einhverjar snúrur milli landa heldur krefst það uppbyggingu á flutningsmannvirkjum hér heima fyrir, virkjunum mjög sennilega til að sjá strengnum fyrir orku: Heldur hv. þingmaður að einhverjum heilvita fjárfesti (Forseti hringir.) dytti í hug að ráðast hér í 800–1.000 milljarða framkvæmd á grundvelli (Forseti hringir.) þess að fá íslenska ríkið dæmt til samninga (Forseti hringir.) við sig? Hver færi af stað í slíkt verkefni?