149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:56]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Við getum vafalítið eytt löngum tíma í meting um (Gripið fram í: Sápubað.) hvaðan sápukúlurnar koma, já. Það er kannski einmitt kjarni máls og ég geri dálítinn greinarmun á því á hvaða löglærðu menn ég hlusta. Þegar ég heyri okkar helstu þjóðréttarsérfræðinga, þegar ég heyri sérfræðinga á sviði hafréttar vísa til þessara skýru, bæði dómafordæma og ákvæða í hafréttarsáttmálanum sem taka af allan vafa um forræði okkar yfir landgrunni og þar af leiðandi öllum áformum um lagningu sæstrengs hingað til lands, og er ekki að taka afstöðu til þess hvort slíkur strengur sé æskilegur eða ekki heldur eingöngu hvort við höfum forræði á því hvort hann verði lagður, þá hlýði ég frekar á slíka sérfræðinga en aðra löglærða menn sem hafa ekki getað bent á nein dómafordæmi, ekki nein fordæmi um slík mál yfir höfuð því að hér er verið að tala um að aðili geti beinlínis þvingað þjóðríki til athafna, til viðskipta við sig á grundvelli dómsmáls sem m.a. felur í sér þörfina á því að ráðast í verulega uppbyggingu á flutningskerfum hér heima fyrir og virkjunarframkvæmdir.

Ég nefni hvort einhverjum heilvita fjárfesti dytti slíkt í hug til að byrja með, dæmi um það hversu erfiðlega gengur fyrir Landsnet að byggja hér einfalt flutningsmannvirki milli tveggja punkta þrátt fyrir fullan pólitískan vilja á bak við slíka uppbyggingu. Það gefur alveg augaleið að enginn fjárfestir myndi ráðast í slíka uppbyggingu, slíka fjárfestingu, án þess að vera í fullu og góðu samstarfi við íslensk stjórnvöld. Það gefur líka augaleið út frá þeim dómafordæmum sem vísað er til út frá hafréttarsáttmálanum að hann hefði aldrei nokkurt mál til að byggja á. Það yrði heldur aldrei nein hætta á slíkum málssóknum því að það er fjarstæðukennt að halda að fjárfestar hættu slíkum fjármunum í fjárfestingar í átökum og ágreiningi við (Forseti hringir.) stjórnvöld viðkomandi ríkja.