149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[16:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þingmenn verðum bara að vera ósammála um þetta. Ég vil þakka þingmanninum fyrir andsvörin og málflutninginn og fyrir að hafa tekið þátt í umræðunni þótt við séum ósammála um innihaldið.

Við höfum undirgengist alls konar aðrar skuldbindingar á vettvangi þessa samstarfs, fjórfrelsið svo dæmi sé tekið. Við vitum alveg að Evrópusambandið lítur á orku sem vöru sem á að flæða frjálst á milli o.s.frv. Menn eru í rauninni að takast á um hvort verði sett hærra, hafrétturinn eða sá sérsamningur sem þarna er um að ræða. Um það er tekist og ég er ekki til í að taka þann séns. Það er einfaldlega þannig.

Varðandi Noreg og hafréttarsáttmálann. Í minnisblaði atvinnuvegaráðuneytisins sem var lagt fyrir utanríkismálanefnd, og er reyndar síðan 2014, er vitnað til þess að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi hafnað undanþágu Noregs um kapla út í borpallanna og sagt að tilskipunin sem um ræði gildi í efnahagslögsögunni og á landgrunninu.

Ég myndi gjarnan vilja fá skýrari svör við því frá sérfræðingi okkar í hafrétti hvort hann undanskilji þá Ísland með einhverjum hætti. Er það grunnlínan og hvar er hún nákvæmlega? Grunnlínan við Íslandsstrendur er held ég ekki samkvæmt ströndinni, hún er með beinum línum. Er miðað við þá grunnlínu? Gildir tilskipunin ekki frá grunnlínu inn að landi? Samkvæmt því sem framkvæmdastjórnin álítur gagnvart Noregi gildir tilskipunin á landgrunninu og í sérefnahagslögsögunni. Mér fyndist að við ættum að reyna að fá það skýrt.