149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[17:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Þau þrjú mál sem við ræðum í dag, sem eru í atvinnuveganefnd, varða sjálfstæði Orkustofnunar og svo eru tvö atriði um fyrirvara, annars vegar þingsályktunartillaga sem segir að ekki verði lagður sæstrengur nema með samþykki Alþingis og hins vegar frumvarp þar sem er fest að fylgja verði þeirri orkustefnu sem setur ákvæðið um samþykki Alþingis. Það er þannig búið að festa það í lög, bæði þingsályktunartillaga og lagafrumvarp sem festir í sessi að ekki verði lagður sæstrengur nema Alþingi samþykki það.

Við erum búin að vera að ræða þetta svolítið í dag. Þetta þýðir að það þarf þingsályktunartillögu að lágmarki til þess að hægt sé að fara af stað með það að skoða sæstreng og það verður að fara í gegnum alls konar greiningarvinnu samhliða á efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum o.fl. Þannig að þau mál tvö skapa ákveðinn fyrirvara, það verður að fara í mikla greiningarvinnu. Svo verður þetta að vera í þinginu og þá væri hægt, aftur út af þeirri þingsályktunartillögu, eins og þriðji orkupakkinn er þingsályktunartillaga, að beita málþófi. Það er því verið að setja aðrar varnir neðar.

Mér hefur skilist á umræðunni og það er skýrt að mörgum finnst þær varnir ekki halda. En það eru aðrar varnir í boði. Nú er ljóst að allir þingflokkar eru búnir að skrifa undir að um þetta mál verði greidd atkvæði á mánudaginn, sem þýðir að þeir eru búnir að fyrirgera rétti sínum til áframhaldandi málþófs í málinu. Einu varnirnar sem eru til staðar varðandi þessi mál eru þá að setja það og samþykkja að samþykki Alþingis þurfi á sínum tíma í framtíðinni ef til sæstrengs kemur. Það eru alla vega þær varnir. Ég er búinn að tala við aðra Miðflokksmenn um þetta í dag og þeim þykir enginn skaði að því en ítreka að þeim finnst það ekki nóg.

En það eru aðrar varnir, þ.e. að sett sé í stjórnarskrá að ríkisvald verði ekki framselt nema að undangengnu samþykki þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Forseti hringir.) Þetta er í frumvarpi stjórnlagaráðs. Það ákvæði eitt og sér er í starfshópi forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskrá sem Miðflokkurinn er aðili að. (Forseti hringir.) Þetta er í boði samkvæmt stjórnarsáttmálanum fyrir lok kjörtímabilsins. (Forseti hringir.) Er þingmaðurinn hlynntur því?