149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[17:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mjög áhugavert og held að ég gæti alveg verið hlynntur svona fyrirkomulagi eða ákvæði. Það fer að sjálfsögðu aðeins eftir því hvernig það yrði útfært. Ég myndi vilja sjá það fyrst en mér finnst ekki útilokað að sú leið sé farin. Í dag erum við ekki með nógu skýrt ákvæði um það hvernig við förum með framsal á ríkisvaldi. Það hefur oft komið upp í umræðunni að þetta þurfi að skýra með einhverjum hætti og hefur áður verið reynt að setja inn ákvæði í stjórnarskrá um hvernig við getum framselt ríkisvald, sérstaklega til alþjóðlegra stofnana, og er þá yfirleitt hafður í huga EES-samningurinn. En mér finnst mjög áhugavert að í svona stórum málum eins og um ræðir sé á einhvern hátt skilgreint að við þurfum hreinlega að hleypa þjóðinni að því. Við hv. þingmaður vitum vel og gætum hafa deilt um það fyrir nokkrum árum að það skiptir máli hvernig menn orða spurningar þegar verið er að spyrja þjóðina að einhverju, t.d. um stjórnlagaráðið, hversu hlutlaus spurningin getur verið, hversu upplýsandi kynningarefni á að vera um það sem er í gangi o.s.frv. Útfærslan skiptir líka verulegu máli.