149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[17:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ég man rétt var margt ágætt í frumvarpi stjórnlagaráðs þótt ég hafi alls ekki verið hlynntur öllu sem þar kom fram.

Eins og hv. þingmaður las þetta upp þá virðist mér eins og þar sé talað um allt ríkisvald, að skilgreiningin sé sú að ef við erum að framselja ríkisvald skuli það borið undir þjóðina. Hann sagði reyndar allsherjarríkisvald, ef ég tók rétt eftir, eða bætti við, en ef það er bara ríkisvald … (JÞÓ: Framsal ríkisvalds.) — framsal ríkisvalds, allt í lagi. Þetta eru vangaveltur hjá mér: Ef það er breyting á t.d. einhverri Evrópureglugerð sem við erum búin að samþykkja og hún felur í sér einhvers konar aukið — eða erum við að tala um að allar gerðir yrðu framsal ríkisvalds? Það sem ég er að reyna að koma út úr mér er að við þurfum að skilgreina fyrst hvað fellur undir framsal ríkisvalds ef við ætlum að fara þessa leið. Það er kannski sú skýring eða viðmiðun sem við höfum í dag. Kannski er það nægjanlegt, kannski eigum við bara að halda okkur við það, að við þurfum að meta það eins og við metum með þennan stjórnskipulega fyrirvara hvort þurfi að aflétta honum, metum hvort það þurfi að gera eða ekki, og þá sé hægt að fara þá leið sem hv. þingmaður er að tala um. En mér finnst alls ekki fjarstæðukennt að gera þetta.