149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[17:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Það sem við erum að ræða í dag er ekki þriðji orkupakkinn per se, hann var ræddur í gær, hann er í utanríkismálanefnd, hann var tekinn sérstaklega fyrir í gær og hann er þingsályktunartillaga. Það sem við erum að ræða um núna eru þrjú mál sem fóru í atvinnuveganefnd. Eitt þeirra er frumvarp um að Orkustofnun skuli vera sjálfstæð sem er það sem stjórnvöld telja nauðsynlegt að gera til að lagalegur grundvöllur á Íslandi uppfylli það sem þingsályktunartillagan segir. Þingsályktunartillagan, sem er þriðji orkupakkinn sjálfur, er í rauninni að segja að taka eigi upp í EES-reglurnar það sem Evrópusambandið hefur samþykkt á innri markaðnum, þriðja orkupakkann.

Síðan eru tvö önnur mál sem voru í atvinnuveganefnd, annars vegar fyrirvari við þingsályktunartillögu og hins vegar lagafrumvarp sem festir það að ekki verði lagður sæstrengur nema með samþykki Alþingis, það sé þingsályktunartillagan, og svo verði þetta fest í lagafrumvarpi um stefnumótun í raforkumálum. Það sem hefur komið fram í samtölum hérna í dag, m.a. við Miðflokksmenn, hv. þingmenn Bergþór Ólason og Ólaf Ísleifsson, sem eru í nefndunum og fylgja þessum málum eftir, þ.e. í utanríkismálanefnd, allsherjarnefnd og atvinnuveganefnd, er að þessir fyrirvarar eru ekkert slæmir í sjálfu sér, en þeir eru ekki nóg. Það sem þeir gera í rauninni er að þeir bjóða upp á það að Alþingi, eins og ég ræddi við hæstv. ráðherra hérna áðan, þarf að samþykkja þingsályktunartillögu sem þýðir, rétt eins og stundað var málþóf í vor varðandi þriðja orkupakkann, sem er þingsályktunartillaga, að ef á að fara að leggja sæstreng og Alþingi þarf að samþykkja það með þingsályktun, væri hægt að stunda málþóf þá. Og þá er samkvæmt Stefáni og Friðriki kominn þessi stjórnskipulegi fyrirvari. Það er ekki nema þessi sæstrengur verði tengdur sem þeir vilja meina að það sé vafi með stjórnarskrána og þá einmitt myndi sú barátta snúast um hvort menn séu að halda stjórnarskrá eða ekki út frá skilningi Stefáns og Friðriks.

Þegar kemur að þingsályktunartillögunni með þriðja orkupakkann mun ég greiða atkvæði gegn henni af því að mér finnst það nóg, hef ítrekað sagt það hérna þótt ég hafi gert mistök með því að greiða atkvæði með máli sem mér var sagt að stangaðist ekki á við stjórnarskrána en gerði það mögulega, því að ég vil hafa það mjög þröngt. Ef það er einhver vafi vil ég láta stjórnarskrána njóta hans.

Svo vil ég láta festa nýju stjórnarskrána í sessi sem segir varðandi framsal á ríkisvaldi að það sé skýrt og samkvæmt stjórnarskrá hvernig það er gert og enginn vafi um það að ef á að framselja ríkisvald er núna, eins og segir í frumvarpi stjórnlagaráðs, það ákvæði til afgreiðslu hjá öllum flokkum á þingi í samráðshópi Katrínar Jakobsdóttur um breytingar á stjórnarskránni fyrir lok kjörtímabilsins. Þar segir um framsal ríkisvaldsins, eins og ég las áðan, ég get lesið það aftur fyrir þá sem eru að fylgjast mikið með, með leyfi forseta:

„Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.“

Þá er það bara nákvæmlega kýrskýrt hvernig þetta er, sem það er ekki í dag. Í dag leita menn til fræðimanna, sumir túlka það aðeins víðar en aðrir, jafnvel sumir, eins og ég, vilja ef einhver vafi er til staðar láta stjórnarskrána njóta vafans. Þetta er mjög á floti, mjög mismunandi. Þarna væri það bara kýrskýrt. Það verður að bera það undir þjóðina ef afsal yrði á ríkisvaldi.

Varðandi þriðja orkupakkann mun ég greiða atkvæði gegn honum og láta stjórnarskrána njóta vafans. Rétt er að breyta stjórnarskránni þannig að hægt sé að gera þessa hluti með aðkomu þjóðarinnar. Varðandi þau þrjú mál sem við erum að ræða í dag, sem er sjálfstæði Orkustofnunar — ég er ekki alveg kominn að niðurstöðu þar. Ég er búinn að heyra mjög misvísandi hluti um að hvaða leyti Orkustofnun er undir því valdi að innleiða reglugerðir sem koma frá Evrópusambandinu í kjölfarið og nákvæmlega hvernig það er. Ég er því svolítið á hliðarlínunni hvað það varðar.

Hvað þessa tvo fyrirvara varðar eru allir þingflokkar núna búnir að samþykkja að um þetta mál verða greidd atkvæði á mánudaginn sem þýðir að allir þingflokkar eru búnir að fyrirgera rétti sínum til að halda úti málþófi áfram. En þó urðu þessi tvö mál sem heimila það að segja að ef á að leggja sæstreng verður fyrst að liggja fyrir samþykki Alþingis, sem þýðir að nákvæmlega eins og þessi vörn var í vor þegar Miðflokkurinn fór í málþóf um þriðja orkupakkann, sem er þingsályktunartillaga, verður aftur í boði sú vörn þannig að samþykki þingsályktunartillögu Alþingis verður fyrst að fara fram og þá er aftur til staðar sú vörn að fara í málþóf ef á að leggja sæstreng. Ég mun því samþykkja það. Það eru bara auknar varnir.

Píratar greiddu nýlega atkvæði um tillögu um að þriðji orkupakkinn yrði settur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú tillaga var gölluð að því leytinu til að sagt var að hún myndi binda hendur þingmanna, það er samkvæmt stjórnarskrá ekki leyfilegt, hún var því felld. Það er önnur tillaga núna í kerfinu hjá okkur sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp eða þingsályktunartillögu sem er til umfjöllunar á Alþingi. Í slíkum tilfellum framfylgir þingflokkur Pírata kröfunni ýmist með sjálfstæðum tillögum um að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu eða breytingartillögum við tilheyrandi mál svo það taki ekki gildi nema þjóðin samþykki það fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þarna er hægt að festa við þingsályktunartillögur og frumvörp, ef maður setur slíka breytingartillögu og hún samþykkt er búið að gera þau mál þannig úr garði að bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla verður að vera til staðar. Í dag er hægt að tryggja bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur um mál sem Alþingi samþykkir með því að setja svona breytingartillögur. Verði þessi tillaga samþykkt, sem ég geri fastlega ráð fyrir af því að hún er í samræmi við frumvarp stjórnlagaráðs, sem er stefna Pírata og hefur verið í forgangi hjá okkur að fá samþykkta, þýðir það það að ef 10% þjóðarinnar — við erum komin upp í 6–7% með orkupakkann — samþykkja að mál skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu leggjum við það fram sem breytingartillögu um að það verði bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um það mál.

Um hvað er þetta mál? Ef við höldum okkur aðeins frá því að horfa á þriðja orkupakkann og færum okkur yfir í fjórða og fimmta og annan og orkumálin almennt, inn á innri markað, EES-samstarfið í heild, möguleika á EES-samstarfi eða að fara lengra frá því — þessir kraftar eru að verki varðandi annars vegar þetta og hins vegar þeir kraftar sem eru í þessu einstaka máli, þriðja orkupakkanum, hafa með þann vilja landsmanna að gera að hafa forræði yfir sínum eigin auðlindum, hafa auðlindir í þjóðareigu, og vilja landsmanna til að koma málum sínum, stórmálum, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Margir eru hræddir við þetta mál og myndu vilja fá það í þjóðaratkvæðagreiðslu þó að undirskriftasöfnunin hafi ekki sýnt nema 6% sem skrifuðu undir. Maður veit ekki alveg hvar þjóðin stendur hvað það varðar.

Um hvað snýst þetta mál? Ef við horfum á pólitíkina sjáum við að Miðflokkurinn teflir sér gegn þessu og bakkar aldrei með neitt, að það gæti eitthvað hugsanlega verið jákvætt við þetta. Hann hefur bent á fullt af einhverju áhættusömu sem er mjög gott. Síðan er bent á: Nei, þetta er ekki alveg svona áhættusamt. Þá er ekki tekið undir það, aldrei er tekið undir og þá fer maður að hugsa: Þetta er svolítið einstrengingsleg pólitík. Það á sem sagt ekki endilega að taka málefnalega á málinu, það á að keyra áfram á sama hræðsluáróðrinum. Það er orðinn hræðsluáróður þegar menn í samtölum úti um allt, sem eru ekki hérna í ræðustól, sjá að þetta sé kannski ekki alveg svona. Það er kannski ekki alveg rétt, þegar maður ræðir við fólk innan Orkunnar okkar, að það sé verið að jafna orkuverð. Það á að lækka orkuverð. Það er stefnan að lækka orkuverðið. Hvers vegna er það þá ekki tekið upp í ræðustól? Það er ekki tekið upp.

Ég bendi á tvö jákvæð mál, þ.e. að setja aukinn fyrirvara og auknar varnir með þingsályktunartillögunni og frumvarpinu sem við ræðum í dag, auknar varnir til að geta stundað málþóf ef á að tengja sæstrenginn. Hvers vegna er ekki talað um það sem jákvætt? Það er jákvætt, líka fyrir þá sem vilja stöðva þriðja orkupakkann, en ekki má tala um það, maður fer því að hugsa: Þetta eru bara pólitískar skotgrafir.

Svo sér maður það líka hinum megin frá, en þó hafa stjórnarliðar bakkað og bakkað og í dag hafa Miðflokksmenn talað mikið um að Bjarni Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra, hafi sagt að það væri alveg hægt að virkja 102. gr. sem þýðir að skjóta má málinu aftur til EES-nefndarinnar. Stjórnarliðar hafa meira að segja verið málefnalegri en Miðflokksmenn sem vilja ekki bakka með neitt. Og þá hugsar maður: Af þessu máli er mjög mikil pólitísk lykt sem maður á öðrum forsendum hafði áhyggjur af. En menn bakka ekki með neitt sem er sagt þótt bent sé á: Hérna er eitthvað jákvætt, hérna eru aukavarnir, en ef menn vilja ekki taka undir neitt af því, sér maður að málið er gríðarlega pólitískt.

Annað sem bendir til þess að verið sé að nota málið helst í pólitískum tilgangi er hverjir standa t.d. á bak við Orkuna okkar. Ég var að skoða það í dag að þetta eru menn sem eru í Heimssýn sem vilja ekki fara í Evrópusambandið. Þetta eru helst Heimssýnarmenn sem eru búnir að vera í stjórn Heimssýnar frá 2014, í fimm ár, þ.e. Frosti Sigurjónsson, Guðni Ágústsson, Styrmir Gunnarsson og Ögmundur Jónasson. Þessir menn vilja ekki fara í Evrópusambandið og hefðu getað tekið þriðja orkupakkann og gert hann mjög pólitískan og gert fólk mjög hrætt við meira að segja EES-samstarfið og jafnvel fært sig lengra út úr því. Það er pólitískt mjög gott fyrir þá aðila. Það er pólitískt náttúrlega — menn sjá þá stefnu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að hann vill það heldur ekki. Hann vill frekar fara hina leiðina. Þetta eru gríðarlega sterkir pólitískir hagsmunir um að færa sig fjær Evrópusambandinu og jafnvel á þann hátt að við færum okkur út úr EES-samstarfinu. Ég spurði Orkuna okkar þegar hún kom í vor: Þið viljið taka þetta allt saman og horfa á þriðja orkupakkann með fjórða, öðrum og fyrsta, ókei, en eruð þið hlynnt því að við segðum okkur frá þessum orkupökkum? Við þyrftum ekki að segja okkur út úr EES-sáttmálanum, já, en ef við þyrftum að gera það þá er það jafnvel möguleiki. Ókei, hver er þá forgangsröðunin hjá þeim sem berjast gegn þessum orkupakka? Mér sýnist hún vera minnst um orkupakkann og meira um það að færa sig út úr EES-samstarfinu, færa sig frá ESB og það má fórna ýmsu fyrir það. Af þessu máli er gríðarlega sterk pólitísk lykt og menn eru tilbúnir að koma með alls konar hálfsannindi og stundum ósannindi og þegar bent er á, jafnvel að ósekju, að menn hafi kannski komið fram með einhver hálfsannindi o.s.frv. og bent er á það eru menn ekki tilbúnir að bakka með það.

Mér sýnist strategían vera þessi: Þetta er copy/paste af Brexit, þ.e. við erum með ákveðna pólitíska hugmyndafræði sem Miðflokkurinn sýnist vera með, sem er sú að það eigi að færa sig meira úr alþjóðasamstarfi, taka valdið heim, en síðan sýnist mér ekki sérstaklega mikill vilji fyrir því að færa valdið til fólksins. Það á að færa það til stjórnmálamannanna. Þessi orðræða um að færa það frá embættismönnunum og stjórnmálamenn taki bara ákvörðunina er nákvæmlega sama orðræðan og við sjáum. Þá er spurningin: Hverju má fórna fyrir það? Það virðist vera hægt að fórna mjög miklu fyrir þetta. Mér sýnist vera keyrt á þessari framtíðarsýn. Þetta er bara strategískt og auðvitað er mjög snjallt að gera þetta svona. Þetta er copy/paste af Brexit og frá því sem hefur virkað þar. Síðan á að nota þjóðaratkvæðagreiðslur ef menn telja þær ná fram því sem þær vilja, en voru ekki tilbúnir að virða þjóðarviljann í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 um nýja stjórnarskrá. Þetta er ekki hægt, þannig að það er bara valið og hafnað þegar kemur að þjóðarviljanum, það sem á að gera er að færa valdið frá einhverju alþjóðasamstarfi, jafnvel þó að það kosti gríðarlega hagsmuni fyrir landsmenn, fyrir neytendur. EES-samstarfið er mjög gott fyrir neytendur. Ég vil ekki ganga í Evrópusambandið vegna þess að mér finnst of mikil úthýsing á pólitísku valdi þar, en það væri gott fyrir neytendur að ganga í Evrópusambandið. Ég fókusera meira á pólitískt vald, borgararéttindi og slíkt. Ég vil ekki ganga í Evrópusambandið en við getum sagt okkur frá EES-samstarfinu ef okkur finnst það of mikið, ég stoppa að vísu þar og vil ekki samþykkja þennan orkupakka. Ég fókusera minna á efnahagslegu áhrifin en margir á Íslandi fókusera meira á efnahagslegu áhrifin og skiptir þá miklu meira máli.

Í gegnum alla þessa orðræðu er mér alla vega orðið tiltölulega ljóst — ég get alltaf breytt um skoðun ef menn benda mér á eitthvað annað — að þetta er það sem á eftir að vera í gangi í íslenskum stjórnmálum og Miðflokkurinn á eftir að halda á lofti næstu misserin og árin, kannski áratuginn. Við vitum það ekki. Þetta er það sem verður, hvert málið á fætur öðru verður nýtt, jafnvel á kostnað gríðarlegra efnahagslega hagsmuna fyrir landsmenn og neytendur, til að segja okkur meira frá og vera með meira sjálfstæða stefnu þegar kemur að efnahagsmálum í samstarfi við önnur ríki, færa valdið inn en til sterkra stjórnmálamanna. Það er heimsmynd sem mér hugnast mjög illa.

Það er samt sem áður eitt sem þeir sem styðja við þessa baráttu hjá Miðflokknum og Orkunni okkar eiga þá að horfa til, að fyrst þetta er það sem þeir vilja eru fleiri varnir í boði. Það eru varnir í nýju stjórnarskránni, það eru varnir og nokkur ákvæði þeirra sem er núna verið að ræða samkvæmt stjórnarsáttmálanum um breytingu á stjórnarskránni. Þær hafa að gera með náttúruauðlindir í þjóðareigu. Ég skora á ykkur að fylgjast með hvort Miðflokksmenn muni styðja það. Þar eru varnir og ef það væri komið væru það varnir gegn þeirri hræðslu sem fólk hefur um að það eigi bara að virkja allt. Það eru ákvæði um náttúruvernd í stjórnarskrá sem myndi líka þýða að ekki væri hægt að koma með þrýsting utan frá sem er ákveðinn partur af hræðsluáróðrinum, að það yrði bara að virkja allt hér. Það eru varnir um framsal á almannavaldi þannig að framsal á ríkisvaldi verði ekki gert nema með samþykki þjóðarinnar í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru varnir gegn því að ef við fáum sterka stjórnmálamenn sem ætla bara að ráða sjálfir gegn þjóðarviljanum getur þjóðin kallað málið til sín. Við höfum séð það og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sem utanríkisráðherra þurfti að leggja fram þingsályktunartillögu, og gerði, um að segja sig frá ESB-innleiðingunni. Það var innleiðing, en hann ákvað sjálfur, fyrst að hann fékk það ekki í gegn, að senda bréf til Brussel um að hætt hefði verið við. Sterkur stjórnmálamaður sem einn tekur ákvarðanirnar þvert á þjóðarvilja sem vildi fá að greiða atkvæði um það.

Það er því gríðarlega mikilvægt að áður en, ef og mögulega, þeir sem tala um sterka leiðtoga sem eiga að taka valdið til sín og taka ákvarðanir að við fáum í stjórnarskrá ákvæði sem bindur þessa stjórnmálamenn og stöðvar það ef þeir ætla að vaða yfir þjóðina. Það er það sem við höfum séð. Það verður að binda það í stjórnarskrá að ef þeir ætli að taka ákvarðanir sem eru gegn þjóðarviljanum geti 10% þjóðarinnar kalla málin til sín.