149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[17:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að lengja þessa umræðu um of en það er ánægjulegt að hér séum við loksins að ræða hið raunverulega innihald þriðja orkupakkans, það sem eftir stendur þegar öllum þeim hræðsluáróðri sem hefur verið hafður uppi í þessu máli hefur verið ýtt til hliðar. Það verður nefnilega að skipta umræðunni í tvennt. Annars vegar er fjallað gríðarlega mikið um hinn sameiginlega orkumarkað Evrópusambandsins sem við erum þegar aðilar að í gegnum fyrsta og annan orkupakkann og raunar hafa orkumálin verið hluti af EES-samningnum alveg frá því að við undirrituðum hann á sínum tíma fyrir aldarfjórðungi síðan. Um það er ekki deilt. Við erum hluti af sameiginlegum raforkumarkaði Evrópusambandsins og þriðji orkupakkinn snýst ekkert um það hvort við ætlum að gerast aðili að þeim markaði eða ekki. Við erum það nú þegar og margt af þeirri umræðu sem snertir t.d. umræðuna um sæstreng eða markaðsvæðingu raforkunnar hefur einfaldlega þegar átt sér stað. Við þyrftum þá að segja skilið við EES-samninginn. Við sækjum ekki í dag um undanþágur frá einhverju sem við höfum þegar innleitt.

Það sem þriðji orkupakkinn snýst um er einfaldlega sjálfstæði eftirlitsaðila, aukin áhersla á samkeppni og neytendarétt fyrst og fremst og síðan er auðvitað verið að skerpa á hlutverki Orkustofnunar eða regluvarða í hverju aðildarríki fyrir sig og ACER-stofnunarinnar þegar kemur að viðskiptum með raforku yfir landamæri, sem ekki er deilt um í þessu máli að er ekki fyrir hendi hér á landi þar sem við erum ekki tengd við meginland Evrópu.

Tölum um það sem málið snýst um. Þar er það kannski fyrst og fremst neytendarétturinn sem mér finnst hafa verið lítið ræddur í því samhengi og raunar lítið gert úr, mikilvægi samkeppni á raforkumarkaði eins og á öðrum mörkuðum. Og þar höfum við séð og höfum óyggjandi, óvænt og endalaus dæmi um það að þrátt fyrir að þessi sanngirni verði seint talin fullkomin þá er hún að styrkjast, hún hefur áhrif og hefur leitt það af sér að verð til neytenda er lægra en ella, ekki hærra, eins og gjarnan hefur verið haldið fram og hv. þm. Birgir Þórarinsson m.a. staðhæfði, að það hefðu átt sér stað miklar verðhækkanir á raforku hér á landi í kjölfar markaðsvæðingar raforkumarkaðar 2003. Það liggur fyrir skýrsla sem unnin hefur verið fyrir íslensk stjórnvöld sem sýnir akkúrat hið gagnstæða. Raunverð á raforku lækkaði fyrstu árin eftir að fyrsti orkupakkinn tók gildi meðan verið var að markaðsvæða og efla samkeppnisumhverfi raforkumarkaðar.

Raforkuverð hefur hækkað að raungildi að nýju og er svipað að raungildi í dag og það var þegar fyrsti orkupakkinn tók gildi. Ástæðan fyrir því er skýr og einföld. Það er raforkuskortur á raforkumarkaði sem m.a. endurspeglast í því að Landsnet hefur fengið talsvert lakari tilboð á undanförnum árum í hið svokallaða orkutap vegna þess einfaldlega að það vantar orku inn í kerfið. Það hefur ekkert með tengingu okkar eða tengingarleysi við sameiginlegan evrópskan raforkumarkað að gera. Það hefur bara með það að gera að við höfum virkjað of lítið til að mæta orkuþörf innan lands á undanförnum árum og erum að horfa núna, og við því er varað í umræðu um raforkuöryggi, á hættuna á raforkuskorti.

Tölum um staðreyndirnar í málinu. Samkeppni á raforkumarkaði hefur haft jákvæð áhrif fyrir neytendur og því til enn frekari stuðnings hefur sá þáttur raforkuverðsins sem sætir samkeppni, því að stór hluti er auðvitað flutningur og dreifing sem sætir opinberum verðlagsákvörðunum, lækkað eða hækkað talsvert minna en sá hluti sem sætir opinberri verðlagningu.

Mér finnst líka gleymast í umræðunni að það er sífellt verið að reyna að mála þennan sameiginlega evrópska raforkumarkað einhverjum dökkum litum, að okkur stafi ógn af honum, að hér séu annarleg sjónarmið að baki því að Evrópusambandið sé að byggja upp sameiginlegan öflugan raforkumarkað. Markmið með sameiginlegum evrópskum raforkumarkaði eru ekkert sérlega flókin. Þau eru ekkert sérlega dularfull, hvað þá varhugaverð eða hættuleg fyrir þjóð eins og okkur. Það er verið að tala um bætta orkunýtingu. Raforkunotkun á meginlandi Evrópu hefur gríðarleg umhverfisáhrif og þess vegna skiptir miklu máli að draga úr sóun á raforku og sú fjárfesting, sú áhersla sem hefur verið á að byggja upp sameiginlegt flutningsnet fyrir meginland Evrópu, hefur fyrst og fremst snúið að því að draga úr orkusóun og í öðru lagi að auka samkeppni með raforku neytendum til hagsbóta.

Umhverfi raforkumarkaðar í Evrópu var líkt og hér á landi einkennandi fyrir fákeppni, fyrir einokunarfyrirtæki, oftast í ríkiseigu. Hér er einfaldlega viðleitni til að auka frjálsa samkeppni á þeim markaði til að neytendur njóti ábata af samkeppni þar líkt og á öðrum mörkuðum. Og við sjáum alltaf sömu dæmin, þó að við getum ávallt gagnrýnt að samkeppni sé ekki nægjanleg eða ekki fullkomin, um að of lítil samkeppni er samt alltaf miklum mun betri en engin samkeppni. Þannig að við eigum að taka höndum saman um að efla þá samkeppni hér líka.

Þriðja meginatriðið er auðvitað hreint umhverfismál sem er að auka vægi grænnar orku, umhverfisvænnar orku á raforkumarkaði Evrópu. Það hefur sem betur fer verið að aukast og er gríðarlega mikilvægt umhverfismál fyrir plánetuna alla að okkur takist þar vel upp.

Þetta eru í einfaldleika markmið þeirra raforkupakka sem við höfum verið innleiða; aukin samkeppni, minni raforkusóun, aukin notkun á grænni orku. Þetta er ekki flóknara og það er ekkert að óttast í því. Þetta eru allt saman mjög góð og göfug markmið sem við eigum óhrædd að taka þátt í að styrkja. Enda spyr maður sig þegar þetta mál er skoðað ofan í kjölinn: Hverju sætir að þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem öðrum fremur báru ábyrgð á því að vinna að innleiðingu þessa máls, að reisa mögulega fyrirvara Íslands gagnvart orkupakkanum, gagnvart Evrópusambandinu þegar þetta var raunverulega til umræðu í sameiginlegu Evrópsku efnahagsnefndinni árin 2013–2016, skyldi ekki halda uppi sömu varnaðarorðum þá? Það var þvert á móti niðurstaða ríkisstjórnar á þeim tíma, undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þá forsætisráðherra, og Gunnars Braga, þá utanríkisráðherra, að það væri ekkert að óttast í þeim efnum, þetta væri mál sem væri fullbúið til að taka upp í EES-samninginn.

Ég verð að viðurkenna að ég hef talsvert meiri tiltrú á orðum þeirra sem þá báru ábyrgð á þeim málaflokki, báru stjórnskipulega ábyrgð á hagsmunum Íslands í þeim málum heldur en nú, þegar sömu menn eru mættir í stjórnarandstöðu og lýsa málinu sem stórhættulegu í alla staði. Ég treysti orðum þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra og athöfnum þeirra í málinu betur en orðum og athöfnum sömu einstaklinga nú í annarri stöðu.

Það sem eftir virðist standa, ef við förum aðeins í gegnum grundvallaratriði málsins sem varnaðarorð hafa verið höfð uppi um, er að innleiðingin standist ekki stjórnarskrá, að í þessu felist einhvers konar framsal á forræði okkar yfir auðlindum landsins. Hvoru tveggja hefur verið hafnað af öllum helstu sérfræðingum landsins, þar með talið þeim sérfræðingum sem þingmenn Miðflokksins hafa hvað oftast vísað til í málinu. Málið sé fram sett hér með nægjanlega skýrum fyrirvörum til að það standist fyllilega stjórnarskrá lýðveldisins og þar með sé staðinn vörður um helstu hagsmuni okkar í málinu.

Það hefur verið rætt mikið um raforkuverð og að orkupakkinn hafi óhjákvæmilega haft og muni áfram hafa áhrif til hækkunar á raforkuverði. Staðreyndin er sú þegar skoðuð er m.a. mjög vönduð og ítarleg skýrsla sem verkfræðistofan EFLA vann fyrir Stjórnarráðið um þróun á raforkuverði, allt frá því að fyrsti orkupakkinn tók gildi 2003, að raforkuverð að raungildi hefur staðið í stað. Það þýðir að það hafi hvorki hækkað meira né minna en verðlag almennt í landinu á sama tíma. Það eru öll ósköpin sem hafa gengið yfir.

Eins og ég lýsti í máli mínu áðan eru áhrifin fyrstu árin eftir innleiðingu fyrsta raforkupakkans þau að raunverð raforku fór lækkandi. Hækkanir undangenginna ára skýrast fremur af raforkuskorti en innleiðingu okkar á grundvallaratriðum sameiginlegs raforkumarkaðar, þ.e. aðskilnaði dreifiveitna og flutningskerfa og svo aftur frjálsrar samkeppni við sölu á raforku.

Það má auðvitað velta fyrir sér á sama tíma: Erum við með nægjanlega öflugt og skilvirkt eftirlit með fákeppnis- eða einokunarhluta raforkumarkaðarins, sem er auðvitað flutningsmarkaðurinn og dreifiveitumarkaðurinn þar sem ekki er val um samkeppni? Það held ég ekki. Það sýnir sig í því að verðlag á þeirri flutningsþjónustu hefur hækkað meira en verð á raforkunni sjálfri sem er undir samkeppni. Þess vegna styð ég heils hugar að verið sé að skerpa á eftirlitshlutverki Orkustofnunar hvað þetta varðar. Ég held að því hafi ekki verið nægilega vel sinnt. Ég held að það sé of mikil meðvirkni eins og oft er hætt við þegar við erum með opinber fyrirtæki sem þessi sem eru síðan háð regluvörðum um ákvörðun á verði og þjónustu sinni, þeim sækist það of auðveldlega að fá hækkunartillögur samþykktar. Þess vegna fagna ég því að herða eigi þetta eftirlit til muna og einmitt með hagsmuni neytenda, með hagsmuni samkeppni á markaði að leiðarljósi.

Það hefur líka verið rætt töluvert mikið um sæstreng. Ég ætla ekki að fara í löngu máli yfir lögfræðilega loftfimleika varðandi samningsbrotamálin en það er alveg skýrt að þegar kemur að lagningu sæstrengs yfir landgrunn hefur hafréttarsáttmálinn forgöngu umfram EES-réttinn. Það er alveg skýrt samkvæmt hafréttarsáttmálanum að þar höfum við fulla lögsögu um það hvort hér verði lagður sæstrengur eða ekki. Fyrir því eru dómafordæmi hjá Evrópudómstólnum sem ítrekað hefur verið bent á og fyrir þeirri skoðun liggja líka fyrir mjög skýr álit okkar helstu sérfræðinga í þeim efnum. Ég held að engin ástæða sé til að hafa nokkrar einustu áhyggjur af samningsbrotamáli á þeim grundvelli.

Fjórfrelsi EES-samningsins, sem m.a. kveður á um það viðskiptafrelsi að allir skuli hafa frelsi til að selja vöru og þjónustu milli landa, felur ekki um leið í sér réttinn til að þvinga mótaðilann til þeirra sömu viðskipta. Það má bjóða þjónustuna. Það er grundvallarmunur á því í þessu samhengi. Ef Ísland ákvæði að leggja sæstreng þá kynni að myndast skylda til þess að bjóða slíkt verkefni t.d. út á Evrópska efnahagssvæðinu, að leita tilboða fleiri en eins aðila varðandi mögulega sölu um slíkan sæstreng eða virða grundvallaratriði fjórfrelsisins þegar kemur að þeim þáttum. En ég get ekki sem erlendur fjárfestir mætt upp til Íslands og krafist þess að íslensk stjórnvöld eigi við mig viðskipti í gegnum sæstreng sem þau þyrftu síðan nota bene að byggja upp alla innviði og virkjanir til að fóðra.

Það sér hver skynsamur maður að á slíku verða viðskipti aldrei reist. Það snýr að skipulagslöggjöfinni hér heima fyrir hvar flutningsmannvirki skuli reist ef þau skuli reist. Það snýr grundvallaratriðum varðandi nýtingu auðlinda sem við höfum fullt forræði yfir. Við verðum aldrei þvinguð til virkjana til að veita rafmagni inn á sæstreng. Þetta eru lögfræðilegir loftfimleikar þegar komið er út í þær vangaveltur um samningsbrotamál. Það hefur ekki verið hægt að vísa í nokkurt einasta fordæmi um það að þjóðríki hafi verið þvinguð til slíkra viðskipta í þessari umræðu allri. Þetta eru loftfimleikar eða lögfræðileg vísindaskáldsaga, eins og ágætur lögmaður og dómari orðaði það.

Það sem mér þykir hins vegar verst í umræðunni allri er sá hræðsluáróður sem hafður hefur verið uppi í umræðunni um sæstreng, að okkur stafi stórkostleg ógn af því að leggja hingað sæstreng. Umræðan um sæstreng snýst ekki um neitt annað en hagsmuni Íslendinga í útflutningi á raforku. Það er ágætt að hafa í huga að við flytjum út í dag 80–85% af orkuframleiðslu okkar í gegnum ál og afurðir orkufreks iðnaðar. Sæstrengur gerir ekkert annað en að styrkja möguleika okkar til útflutnings á raforku. Á því eigum við að vega og meta hagsmuni okkar, hvort við eigum í heildarsamhengi hlutanna að ráðast í slíkt verkefni eða ekki.

Umræðan um hækkun á raforkuverði til heimila er vissulega mikilvægur þáttur í slíku hagsmunamati en það er líka mikilvægt að hafa í huga að ef við sem þjóð fáum hærra raforkuverð en ella fyrir framleiðslu okkar þá er líka hægt að mæta þeim áhrifum á heimilin með því t.d. að lækka eða fella niður virðisaukaskatt á raforku til heimilisnotkunar. Það er mjög einföld aðgerð og ágætt að horfa til þess þegar við berum saman raforkuverð til heimilisnota hér á landi við nágrannalönd okkar, t.d. við Noreg, að það er ekki sá grundvallarmunur á sem oft er lýst. Við erum um miðbik Evrópu þegar kemur að raforkuverði til heimilisnota sem segir okkur einfaldlega í allri skynsemi að það væri hægur vandi ef við kysum að leggja hingað sæstreng og það leiddi til hærra raforkuverðs að mæta því með því t.d. að fella niður virðisaukaskatt á raforku til heimilisnota. Þjóðin hefði af því ríkari tekjur. Hagsmunum heimilanna væri mætt á þann hátt.

Á þeim grunni eigum við að vega og meta kosti sæstrengs, eins og við vegum og metum alla kosti okkar í útflutningi á vöru og þjónustu. Hvað kemur hagsmunum okkar sem þjóðar best? Hvernig hámörkum við verð á afurðum okkar sem við flytjum úr landi þannig að við getum byggt hér upp öflug og góð lífskjör? Það á ekki að vera með hræðsluáróður hvað þetta varðar frekar en aðra þætti. Þetta er nákvæmlega sama í eðli sínu og valkostir okkar í útflutningi á sjávarafurðum okkar. Hér dytti engum heilvita manni í hug að setja sjávarútvegi skorður við útflutningsmöguleikum sínum á þeirri mikilvægu auðlind okkar af því við vildum halda kílóverði á ýsu niðri heima fyrir. Það er aðeins brot af heildarhagsmunum. Við þurfum að vega hagsmuni saman í heild sinni út frá því sem kemur þjóðinni allri sem best. Að sjálfsögðu eru hagsmunir heimilanna þar undir en líka hvernig við höfum sem mesta arðsemi af þeirri mikilvægu auðlind okkar sem raforkan er.

Miðflokknum hefur ítrekað spurt í umræðunni: Af hverju ekki að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar? Það eru engin fordæmi fyrir slíkri vísun í 25 ára framkvæmd EES-samningsins en hefur þó af sérfræðingum verið lýst sem algerum neyðarhemli í slíku máli. Af hverju ætti að beita þeim neyðarhemli nú? Hvað er það í eiginlegri innleiðingu þriðja orkupakkans sem myndi réttlæta slíkt þannig að trúverðugleiki okkar í EES-samstarfinu væri ekki í hættu? Ég hef ekki séð nein þau málsrök í málflutningi Miðflokksmanna, hvorki í vor né nú í endurtekinni umræðu um þetta mál í þinginu sem réttlæta notkun slíks neyðarhemils. Þvert á móti er þetta sennilega eitt af þeim EES-málum sem er með þeim léttvægari þegar kemur að EES-samstarfinu sem við höfum tekist á við á undanförnum árum.

Við höfum verið að innleiða sameiginlegt regluverk á fjármálamarkaði sem er miklu yfirgripsmeira, miklu áhrifameira á innanlandsmarkaði en þriðji orkupakkinn. Við tókum á síðasta ári upp sameiginlega evrópska persónuverndarlöggjöf sem er að sama skapi miklu yfirgripsmeiri, miklu áhrifameiri fyrir heimili og atvinnulíf hér á landi en nokkru sinni þriðji orkupakkinn. Það er einfaldlega ekkert sem kallar á að beita þessum neyðarhemli hér og nú. Það er engin innstæða fyrir þeim (Forseti hringir.) málflutningi, fyrir þeim hræðsluáróðri sem hefur verið haldið uppi í málinu.(Forseti hringir.) Þess vegna hlakka ég til að umræðunni ljúki og við fáum tækifæri í þingi til að greiða um það atkvæði.