149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[17:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. ræðumanni fyrir ræðuna. Hún var mestan part málefnaleg, kom mér á óvart. Ég vil samt staldra við vegna þess að hún var ruglingsleg, því að hv. þingmaður talaði öðru hvoru á móti sjálfum sér. Hann sagði m.a., sem er alveg hárrétt hjá honum, hann kanni þetta: Við erum að flytja 80% af orkunni okkar út í föstu formi. Ætlum við að hætta því og fara að flytja hana út bara eins og hún kemur af skepnunni? Þetta er svona sambærilegt við að við myndum hætta alfarið að áframvinna fisk á Íslandi og senda hann bara með haus og hala eins og við gerðum fyrir 50 árum? Þetta skil ég ekki alveg.

Síðan verð ég að viðurkenna, hv. þingmaður, að neytendaverndarþátturinn í þessu máli er hlægilegur. Ágætur kollegi minn nefndi hér í dag dæmi og ég heyrði líka á sama fundi dæmi um ágæta konu sem fékk 452 kr. á ári fyrir að skipta um rafmagnsfélag eða dreifingarfyrirtæk. Mér fannst hv. þingmaður vera að lýsa hér áðan svipuðu ástandi eins og er á eldsneytismarkaði á Íslandi, þar sem við höfum einhverjar fimm línur og tíu aura mun. Við erum með fimmfalda dreifingarlínu og tíu aura mun fyrir utan einn aðila sem var fluttur inn, eins og við þyrftum að flytja inn kaupmenn til að lækka vöruverð á Íslandi. En það er önnur saga.

Ég bara verð að viðurkenna, hv. þingmaður, að mér finnst framsal á orkuauðlindinni eða valdheimildum okkar teygja stjórnarskrána til hins ýtrasta fyrir 452 kr. á ári. Ég er ekki alveg að kaupa það. Ég er heldur ekki að kaupa það að við hættum að flytja út orkuna okkar og gefum frá okkur forskotið okkar og hættum að flytja hana út í föstu formi til að láta sjúga hana héðan frá okkur fyrir lítið sem ekki neitt.

Mig langar til að biðja hv. þingmann um að varpa ljósi á þetta fyrir mig.