149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[17:49]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið, sem var að mestu leyti málefnalegt. Í fyrsta lagi varðandi samkeppni á raforkumarkaði, þá þekki ég ekki það dæmi sem hv. þingmaður vísar til en ég hef heyrt það nefnt hér fyrr í dag. Ég nefni þá aftur eigið dæmi. Ég skipti sjálfur um raforkusala fyrr á þessu ári og það munar mig 10% á mánuði. Það er raunverulegur munur í þeim reikningi sem ég greiði mánaðarlega. Það munar mig rúmlega 1.000 kr. á mánuði eftir að ég skipti um raforkusala. Ég hlýt því að álykta sem svo að þessi samkeppni sé raunveruleg, að valkosturinn sé raunverulegur. En eitt af því sem nefnt er sem vankantur í samkeppni á markaði er hversu lítið heimilin þekki til þessarar samkeppni og hversu lítið þau séu í raun að nýta sér möguleika sinn til að skipta um raforkusala. Það eykur vissulega samkeppnisþrýsting á markaði ef heimilin fara upp til hópa að velja sér þá sem eru lægstbjóðendur á hverjum tíma. En það er líka síða sem heldur úti verðsamanburði og það munar 10% á hæstbjóðanda og lægstbjóðanda hvað það varðar. Ég get bara staðfest að ég þáði tilboðið sem lægstbjóðandi bauð og það er það verð sem ég fæ. Þannig að ég get ekki séð annað en að þessi samkeppni sé virk og til staðar.

Hvað varðar útflutning á raforku í gegnum afurðir orkufreks iðnaðar: Að sjálfsögðu er ég ekki að leggja til að við myndum hætta slíkri framleiðslu enda getum við aldrei flutt út um rafstreng alla þá orku sem við flytjum út með þeim hætti. Það liggur í augum uppi. Við flytjum hins vegar út ferskan heilan fisk, einfaldlega af því að í einhverjum tilvikum skilar það okkur hærra verði þegar allt er metið frekar en að flaka hann eða verka með öðrum hætti. Við flytjum út sjávarafurðir í mjög fjölbreyttu formi, allt eftir því hvernig hentar hagsmunum okkar best og það sé ég líka fyrir mér á þessum markaði.

Möguleikinn á því að geta flutt raforku út um streng, það má ekki gleyma því heldur að við getum líka flutt hana inn, er einfaldlega til þess að styrkja samningsstöðu okkar gagnvart þeim sem nýta raforkuna hér heima fyrir, en líka til að skapa okkur fjölbreyttari möguleika til útflutnings á raforku til að styrkja tekjur okkar af henni.