149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[17:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta svar. Ég er enn ekki sannfærður þannig að mig langar til að spyrja hann aðeins frekar. Ef við horfum á framtíðaratvinnugreinar Íslands þá hef ég persónulega horft mikið til garðræktar, þ.e. ylræktar. Samtök garðyrkjubænda hafa varað við samþykkt þessa máls, þ.e. þessa pakka sem við höfum verið að ræða hér, og þeir segja að þetta muni ganga að garðyrkju á Íslandi dauðri. Ég lít á þetta og margir fleiri sem einn mesta vaxtarsprota sem við eigum til. En ef þessir ágætu menn sem starfa í greininni hafa rétt fyrir sér, og ég hef enga ástæðu eða rök til að halla því, þá ætlum við að kyrkja þá atvinnugrein með því að gera það sem við erum að gera núna. Hefur hv. þingmaður ekki sömu áhyggjur af því eins og ég? Eða hefur hann ekki heyrt þessi rök? Bakarameistarar hafa líka talað um að þetta sé til skaða, það er iðngrein sem bæði er mannfrek og veltir hér miklu.

Síðan verð ég að segja eitt: Ég sé heldur ekki lógíkina í því að samþykkja orkupakka — og við höfum ekkert verið að tala um sæstreng, Miðflokksfólkið. Það eru eiginlega allir aðrir sem eru að troða því upp á okkur að við séum að tala um sæstreng. Við erum að tala um stjórnarskrána, við erum að tala um valdframsal o.s.frv. Hins vegar getur sæstrengurinn hæglega mætt vegna þess að verið er að greiða fyrir því að svoleiðis gerist.

Ég sé ekki ástæðu til þess að tengja landið Evrópu með sæstreng til að hækka hér raforkuverð og demba síðan vaskinum af raforkunni til heimilanna í landinu. Ég er til í að gera það strax án þess að tengjast sæstreng o.s.frv. og lækka bara raforkuverð almennt í landinu eins og við getum. Og jú, það er t.d. tvöfalt hærra raforkuverð í Danmörku en hér. Jú, það er verulegur munur á raforkuverði hér og í nágrannalöndum.