149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[17:53]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið seinna sinni. Ég heyri að ég þarf að bjóða hv. þingmanni upp á kaffi hér á eftir til að ljúka því að sannfæra hann. Ég reikna ekki með að ná að klára það á næstu tveim mínútum, en gefðu mér tíu mínútur til viðbótar þá getum við lokið þessu.

Varðandi umræðuna um sæstreng: Ég er alveg sammála því að við eigum ekkert að blanda umræðunni um sæstreng inn í umræðuna um þriðja orkupakkann. Þetta er bara sjálfstætt mál. Það er sjálfstætt ákvörðunaratriði hvort við viljum fara þá leið eða ekki. Við tökum þá umræðu þá bara vandað og förum í gegnum heildrænt hagsmunamat okkar á því hvort það sé sniðugt eða ekki. Það hefur bara ekkert með það sem við erum að ræða hér í dag að gera, þess vegna eigum við ekki að vera að blanda þeirri umræðu saman. Við verðum ekki þvinguð til að leggja sæstreng. Við leggjum hann ekki öðruvísi en við viljum gera það sjálf og væntanlega gerum við það ekki öðruvísi en við teljum hagsmunum okkar borgið með því. Við getum síðan tekið sjálfstæða umræðu um það hvort við ættum að fella niður virðisaukaskatt af orkuauðlindinni. Ég teldi ekkert óeðlilegt að horfa til þess með hvaða hætti þjóðin njóti góðs af þessu. Ég held reyndar að það fari best með sama hætti og með nýtingu á sameiginlegum auðlindum okkar allra, þ.e. að við leggjum á greinina auðlindagjöld, gjöld fyrir auðlindanýtinguna sem slíka og þjóðin njóti þá í því formi þeirrar arðsemi sem af henni hlýst.

Við erum ekkert að tala um það í þessu samhengi að hætta einu eða neinu. Það er alveg ljóst að orkufrekur iðnaður verður áfram mikilvæg atvinnugrein á komandi árum, vonandi komandi áratugum, þó að auðvitað geti það alltaf breyst. Við vitum hins vegar líka að ekki má mikið út af bregða til þess að einn stór kaupandi hverfi af markaði án þess að það sé sjálfgefið að við fáum nýjan kaupanda þar á móti. Þess vegna hef ég horft til þess að sæstrengur einfaldlega styrki stöðu okkar, styrki samningsstöðu okkar, fjölgi möguleikum okkar. Og þá má heldur ekki gleyma því, þegar við horfum til frænda okkar Norðmanna í þessu samhengi, að það er ástæða fyrir því að Norðmenn (Forseti hringir.) hafa jafnt og þétt verið að fjölga sínum sæstrengjum. Þeir hafa einfaldlega séð að þannig hefur hagsmunum þeirra verið betur borgið og þeir hafa grætt á því sem þjóð að gera það.