149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[17:56]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ætli ég verði ekki að byrja á því að leiðrétta hv. þingmann eins og stundum áður og benda honum á að ég hef aldrei verið sérstaklega fylgjandi þessum þriðja orkupakka, öðru nær. Ég veit reyndar ekki til hvers hann ætlaðist af mér. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður ætlaðist til að ég hrifsaði málið af Alþingi sem var þá með það. Ég efast um að hann hefði tekið því vel ef ég hefði reynt að gera það á sínum tíma. En hvað um það. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þessa smjörklípu sem hv. þingmaður fékk lánaða hjá hæstv. utanríkisráðherra.

Ég ætla að spyrja hann út í það sem hann nefndi varðandi hafréttarsáttmálann og þá kenningu að hann tryggi það að við höfum full yfirráð í sæstrengsmálum vegna þess að við höfum yfirráð yfir landgrunninu. En nú virðist hafa verið kveðið upp úr um þetta því að atvinnuvegaráðuneytið hefur í minnisblaði til utanríkismálanefndar um áhrif þriðja orkupakkans sagt um undanþágu sem Noregur sóttist eftir, og nú vitna ég beint í minnisblaðið, frú forseti:

„Noregur óskaði eftir undanþágu frá því að tilskipunin gilti um raforkuflutning til olíuborpallanna á landgrunni Noregs. Framkvæmdastjórn samþykkti ekki aðlögunina, tilskipunin“ — þriðji orkupakkinn — „gildi um starfsemi í sérefnahagslögsögunni (EEZ) og landgrunni aðildarríkja.“

Þar hefur hv. þingmaður það.

Svo vildi ég auk þess spyrja hann út í Belgíumálið svokallaða, en það kemur fram í tilkynningu frá Evrópusambandinu að sambandið sé farið í málaferli við Belgíu og setji m.a. út á, við innleiðingunni þar, að skilyrði fyrir tengingu við raforku- og gaskerfi Evrópu skuli sett af belgískum stjórnvöldum fremur en landsreglaranum. Það er óásættanlegt að mati ESB að stjórnvöld í Belgíu setji skilyrði um tengingu Belgíu við raforku- og gaskerfið.