149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[17:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eins og oft áður erum við að bera saman epli og appelsínur. Það er skýrt í norska dæminu sem vísað er til að tilskipunin nær til raforkuflutnings í landgrunninu, þ.e. strengs sem liggur út til þessara borpalla. Það er hins vegar grundvallarmunur á fyrirliggjandi tengingum og þar af leiðandi viðskiptum um þá strengi þar sem þriðji orkupakkinn og skilyrði hans gilda, og ákvörðun um að leggja nýja strengi milli landa.

Nú er það óumdeilt að sæstrengur sem þessi verður ekki lagður um okkar lögsögu nema með okkar samþykki þar sem við höfum fullt forræði yfir landgrunninu. Ef við myndum hins vegar ákveða að leggja slíkan streng þá myndi tilskipunin að sjálfsögðu gilda um raforkuflutning um þann streng, líka í landgrunni. Það er það sem norska dæmið vísar til, til raforkuflutnings í landgrunninu, ekki ákvörðunar um að leggja nýjan streng eða ekki. Það er fullt forræði og dómafordæmi sem vísað hefur verið til um þá ákvörðun hvort strengur skuli lagður eða ekki.

Varðandi belgíska dæmið þá erum við enn og aftur að ræða sama grundvallaratriðið. Þetta eru ólíkar ákvarðanir. Þegar um er að ræða ákvörðun um að tengjast orkuneti og hvernig viðskiptareglum um viðskipti yfir orkunet sem þegar hefur verið tengt skuli háttað er þriðji orkupakkinn alveg skýr. Landsreglarinn skal vera sjálfstæður frá stjórnvöldum varðandi ákvarðanir um viðskiptareglur yfir þær tengingar sem þegar eru fyrir hendi. Það er hins vegar óumdeilt að það er á okkar forræði hvort við ákveðum að tengjast netinu eða ekki. En aftur, ef við ákveðum að tengjast netinu þá er það landsreglarinn sem ákveður viðskiptaskilmála tengingarinnar, ekki stjórnvöld. (Forseti hringir.) Um það snýst samningsbrotamál framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gagnvart Belgíu, (Forseti hringir.) þar hafi stjórnvöld ekki að fullu tryggt sjálfstæði landsreglara hvað þetta varðar.